Innlent

Illugi segir milljónirnar þrjár hafa verið launagreiðslu

Bjarki Ármannsson skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir það „algjörlega fráleitt“ að hann sé með einhverjum hætti fjárhagslega háður Hauki Harðarsyni, stjórnarformanni Orku Energy. Stundin sagðist á dögunum hafa heimildir fyrir því að Illugi hefði fengið þriggja milljóna króna lán frá fyrirtækinu en í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld segir ráðherrann að um fyrirframgreidd laun hafi verið að ræða.

„Þarna er um að ræða laun sem greidd eru fyrir vinnu,“ sagði Illugi í viðtali við Þorbjörn Þórðarson fréttamann í beinni útsendingu.

Í yfirlýsingu sem Orka Energy sendi frá sér síðdegis kemur fram að hvorki Illugi né félög tengd honum standi í skuld við Orku Energy.

„Þar kemur líka fram að þær greiðslur sem hafa komið til mín hafa bara verið vegna starfa minna árið 2011,“ sagði Illugi. „Ég ákvað í dag að birta gögn um þetta mál þannig að menn geta skoðað þetta.“

Þá sýndi Illugi Þorbirni jafnframt launaseðil sinn, en hann sagði í viðtali við Fréttablaðið í dag að hann ætlaði sér ekki að opna heimabókhaldið fyrir blaðamönnum.

„Það að ég sé með einhverjum hætti fjárhagslega háður þessum manni er algjörlega fráleitt.“

Umræða um tengsl Illuga við Hauk komst aftur í hámæli í vikunni. Illugi sagði frá því fjölmiðlum í apríl að Haukur hefði keypt íbúð þeirra hjóna og leigði þeim hana nú. Síðan þá hefur hann beðist undan spurningum fjölmiðla um málið, þar til í dag.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.