Innlent

Vilja breyta reglum um lesbíur

Snærós Sindradóttir skrifar
Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár
Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár
„Við vildum svo gjarnan að sama staða gilti fyrir gagnkynhneigð pör í hjúskap og samkynhneigð pör,“ segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að lesbískum mæðrum væri mismunað því þær væru ekki skráðar mæður barna sinna nema þær hefðu skilað inn yfirlýsingu þess efnis til Þjóðskrár. Hið sama gildir ekki um gagnkynhneigð pör sem hafa getið barn með aðstoð tæknifrjóvgunar.

„Staðreyndin er sú að það eru kröfur gerðar í barnalögum um samþykki þeirrar konu sem er í sambúð eða hjúskap og ekki gengur með barn,“ segir Margrét. „Það er búið að leggjast yfir þetta af lögfræðingum hérna og við sjáum okkur ekki fært að fara gegn lögunum.“ Eignist tvær mæður barn með öðrum hætti en tæknifrjóvgun, svo sem með náttúrulegum hætti með aðstoð karlmanns, ber konunni sem gekk með barnið að feðra það. Hin móðirin verður ekki skráð sem slík nema hún stjúp­ættleiði barnið.

Við heildarendurskoðun á barnalögum árið 2013 var þessari reglu ekki breytt þrátt fyrir að athugasemdir hefðu ítrekað borist vegna mismununarinnar. Margrét segir að það sé í höndum Alþingis að breyta reglunum. „Það væri eðlilegt að það væri sama regla sem gilti fyrir alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×