Innlent

Brian Cox vinnur að þáttum á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hinrik Ólafsson og Dr. Brian Cox
Hinrik Ólafsson og Dr. Brian Cox
Breski vísinda- og þáttagerðarmaðurinn Dr. Brian Cox var staddur hér á landi í vikunni en hann vinnur að nýjum þáttum um þessar mundir. Mun Íslandi bregða fyrir í þessari þáttaröð og er Cox væntanlegur aftur til landsins í vikunni til að halda áfram tökum.

Hinrik Ólafsson, leikari, hefur starfað með Brian Cox hér á landi og í samtali við Vísi sagði hann að þeir hefðu verið við tökur í Eyjafirði í síðustu viku en Cox væri nú farinn af landi brott í stutt frí. Hann væri þó væntanlegur aftur í vikunni og tökur myndu halda áfram.

„Hann er allur í þessu vísindaefni og við vorum að mynda í Eyjafirði. Við erum í smá fríi núna en tökuliðið kemur aftur í vikunni og við höldum áfram. Hann er náttúrulega í þessu vísinda- og fræðsluefni og er orðinn gríðarlega vinsæll. Ég get nú ekki sagt nákvæmlega hvernig þættir þetta eru en þetta er af svipuðum toga,“ sagði Hinrik.

Ekki í fyrsta sinn sem Dr. Cox vinnur að þáttagerð hér

Dr. Cox er eðlisfræðingur að mennt og er helstur þekktur fyrir vísindaþætti sína þar sem hann kynnir sjónvarpsáhorfendum fyrir undrum alheimsins. Hann hefur áður komið til Íslands til þess að vinna í þáttum sínum og hefur Hinrik verið honum innan handar.

„Ég var að vinna með honum í þáttum sem hann gerði árið 2010 og heita Wonders of the Solar System sem voru m.a. teknir upp hér. Ég hef unnið fyrir BBC í þessu í 10-12 ár. Ég vinn að því að finna tökustaði og viðmælendur, m.a. íslenska vísindamenn, undirbý þetta allt saman.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×