„Það hefur alltaf borið eitthvað á því að fólk hafi gist í flugstöðinni, en samkvæmt húsreglum Flugstöðvarinnar er bannað að gista. Ástæðan er sú að margir hafa hreiðrað um sig þannig að farangur, svefnpokar og jafnvel tjöld og slíkt er fyrir öðrum farþegum, enda er ekki mikið pláss í innritunarsalnum í flugstöðinni,“ segir Gunnar. Hann segir vandamálið hafa aukist í samræmi við fjölgun ferðamanna og að það sé mest áberandi á sumrin.

Öryggisverðir í flugstöðinni hafa beðið þá einstaklinga sem hafa lagst til hvílu í innritunarsal með sínar pjönkur og pakka að taka dótið sitt saman og færa sig. Gunnar segir flesta sýna reglum flugstöðvarinnar skilning „en í einhverjum tilfellum hefur þurft að margbiðja sömu farþegana um þetta sem hafa ekki sýnt þessu eins mikinn skilning.“
Hann tekur fram að starfsmenn Isavia leggi sig fram um að fara með málin af kurteisi. „En ég veit ekki til þess að við höfum lent í miklum vandræðum með þetta.“
Þrátt fyrir að bannað sé að sofa í innritunarsalnum í Keflavík þá hafa farþegar fullt leyfi til þess að leggja sig á meðan beðið er eftir flugi.