Enski boltinn

De Gea verður uppi í stúku gegn Aston Villa á morgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Gea sat uppi í stúku á Old Trafford á laugadaginn og mun gera að sama á Villa Park á morgun.
De Gea sat uppi í stúku á Old Trafford á laugadaginn og mun gera að sama á Villa Park á morgun. vísir/getty
David De Gea verður ekki í leikmannahópi Manchester United á morgun þegar liðið sækir Aston Villa heim í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta staðfesti Louis van Gaal, knattspyrnustjóri United, á blaðamannfundi fyrir leikinn.

Spænski markvörðurinn hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid í sumar en nær daglega berast fréttir af mögulegum félagaskiptum hans til spænska stórveldisins.

De Gea var einnig utan hóps þegar United vann Tottenham í 1. umferð úrvalsdeildarinnar á laugardaginn en van Gaal taldi hann ekki í rétta hugarástandinu til að spila leikinn. Sergio Romero stóð í marki United á laugardaginn og hélt hreinu í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

„Hann verður ekki í hóp á morgun. Það er sama staða uppi á teningnum og var fyrir síðasta leik,“ sagði van Gaal og bætti því við Marcos Rojo sé ekki enn kominn í nógu gott leikform til að spila og Phil Jones sé enn frá vegna blóðtappa sem hann fékk í síðustu viku.

Á fundinum talaði Van Gaal einnig um að United þurfi að bæta árangur liðsins á útivelli ætli það sér að berjast um Englandsmeistaratitilinn.

„Það er lykilatriði fyrir okkur,“ sagði Hollendingurinn en United vann aðeins sex af 19 útileikjum liðsins á síðasta tímabili.

„Við verðum að bæta okkur í útileikjunum, því við erum með eitt besta lið landsins á heimavelli. Við viljum gera Old Trafford að gryfju en við verðum að spila betur á útivelli og þurfum að bæta okkur þar,“ sagði van Gaal að lokum.


Tengdar fréttir

De Gea vonast til að spila næsta leik

David De Gea skilur ekki ákvörðun Van Gaal að treysta á Romero í marki Manchester United á laugardaginn en spænski markvörðurinn segist vera tilbúinn til þess að spila þrátt fyrir að vera þrálátlega orðaður við Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×