Innlent

Svona flúði kópurinn: Var hann að reyna að bjarga lífi sínu?

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Það er enginn selur sem kominn er til vits og ára sem myndi reyna þetta, enda of stór, en svona spennufíklar þeir reyna ýmislegt,“ sagði Hilmar Össurarson dýrahirðir í samtali við fréttastofu um selkópinn sem slapp úr Húsdýragarðinum í nótt og fannst á vappi á tjaldstæðinu í Laugardal. Komið hefur í ljós að kópurinn nýtti sér gat á milli steina í selalauginni við flóttann mikla.

Í myndbandinu hér að ofan er ferð kópsins rakin, hvernig hann hélt rakleiðis að tjörninni í Grasagarðinum og þaðan upp með læknum þangað til að hann endaði á tjaldsvæðinu að lokum.

Þegar hann náðist að lokum var honum hent upp í lögreglubíl „eins og hverjum öðrum fanga“ að sögn ferðamannsins sem náði myndskeiði af handtökunni í morgun.

Selurinn er nú í gæsluvarðhaldi og fjölmiðlabanni vegna málsins en hann mun einungis dvelja í Húsdýragarðinum í sumar. Með haustinu mun urtan móðir hans stugga við honum og í ljósi aðstöðuleysis í garðinum muni hann hljóta sömu örlög og „önnur gæludýr sem ekki er pláss fyrir í heiminum,“ að sögn Hilmars dýrahirðis. 

Því er eðlilegt að spyrja sig hvort selkópurinn víðförli hafi ekki einfaldlega verið að reyna að bjarga lífi sínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×