Lífið

Samdi lagið í ömurlegu íslensku sumarveðri

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rebekka Sif Stefánsdóttir kemur oft fram.
Rebekka Sif Stefánsdóttir kemur oft fram. vísir
,,Lagið heitir I Told You og er skemmtilegt sumarlag sem er óþægilega auðvelt að fá á heilann,“ segir Rebekka Sif Stefánsdóttir um nýtt lag sem hún var að gefa út. 

„Það fjallar um stúlku sem er ekki alveg sannfærð að gefa ákveðnum dreng tækifæri til að heilla sig, en honum tekst það að lokum. Ég samdi það síðasta sumar þegar það var stanslaus rigning og grátt veður, þurfti í rauninni eitthvað til að hressa mig við.”

Rebekka mun starfa í Skapandi sumarstarfi í Garðabæ í sumar.

„Þar fæ ég tækifæri til þess að koma tónlistinni minni á framfæri, semja meira og skemmta bæjarbúum. Í starfinu er hópur sem verður að taka upp myndbönd í bænum í sumar en þau bjuggu til þetta æðislega textamyndband við lagið. En í honum eru Egill Friðriksson, Brendan Sigursson og Hulda Margrét Sigurðardóttir.”

Hún stefnir að því að spila mikið í sumar og koma fram.

„Maður er alltaf að safna efni í plötu sem verður að veruleika einn daginn. Fyrir Airwaves á síðasta ári gaf ég út lagið ,,Dusty Wind” sem var fyrsta lagið sem ég fékk í útvarpsspilun og það komst meira að segja inná Vinsældarlista Rásar 2 , sem var klikkað. Ég spilaði svo á 7 off-venue tónleikum og þá var gott að vera komin með eitthvað efni út. En ég ákvað að gefa út I Told You núna í sumar í von um að það létti fólki lund í ósumrinu hér á landi og kæti í þau fáu skipti sólin lætur sjá sig.”

Rebekka hefur stundað ná við Tónlistarskóla FÍH síðustu tvö ár og stefnir á útskrift næsta vor í söng af jazz- og rokkbraut.

„Ég tók burtfarapróf úr Tónlistarskóla Garðabæjar í klassískum söng 2012 og fór það haust í Complete Vocal Technique í Kaupmannahöfn, þannig ég er alveg búin að vera í stanslausri söngþjálfun í rauninni. Ég er líka að kenna söng hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu og Klifinu í Garðabæ. Það er yndislegt að vinna með börnum, sköpunargleðin er endalaus.”

Myndbandið við lagið má sjá hér að neðan. Það var hópur sem kallar sig PRÆM TÆM sem bjó til myndbandið, en hann inniheldur unga hæfileikaríka Garðbæinga.

Í laginu I Told You spilar Aron Andri Magnússon á gítar, Sindri Snær Thorlacius á bassa,  Helgi Þorleiksson á trommur og Arnór Sigurðarson sá um upptökustjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×