Innlent

Formaður BHM veit ekki við hverju skal búast á samningafundi í dag

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er ósátt með að ríkið skyldi taka ákvörðun um að setja lögbann á verkfallsaðgerðir BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er ósátt með að ríkið skyldi taka ákvörðun um að setja lögbann á verkfallsaðgerðir BHM. Vísir
Samninganefndir Bandalags háskólamanna og ríkisins munu funda hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segist lítið hafa hugsað um það hvort líklegt sé að ríkið leggi fram ný gögn til þess að leysa deiluna áður en hún fer til Gerðardóms. Lög voru sett á verkföll heilbrigðisstarfsmanna sem eiga aðild að BHM 13. júní síðastliðinn.

„Það verður bara að koma í ljós. Ef ríkið kemur með eitthvað nýtt þá skoðum við það bara.“

Hún segir BHM ekki munu koma með neitt nýtt á samningsborðið þar sem sett voru lög á verkfallið. „Það er búið að banna verkfallsaðgerðir og brjóta samningsréttinn okkar. Við mætum auðvitað á fund sem boðað er til af ríkissáttasemjara en við vitum í raun ekkert hvað er að koma.“

Bandalag háskólamanna ákvað að stefna ríkinu vegna lagasetningarinnar og var málið þingfest síðastliðinn föstudag eftir að flýtimeðferð á málinu var samþykkt. Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi 6. júlí.


Tengdar fréttir

Segir mótmælin endurspegla ástand sem bregðast verði við

Fjölmenni var saman komið á Austurvelli í gær, á þjóðhátíðardegi Íslendinga, í þeim tilgangi að mótmæla sitjandi ríkisstjórn. Skiptar skoðanir eru um tímasetningu mótmælanna. Eru ýmist sögð gleðispillir barna eða viðeigandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×