Innlent

118 starfsmenn Landspítalans sagt upp frá lagasetningu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Á annað hundrað starfsmenn Landspítalans hafa sagt upp störfum eftir að lög voru sett á verkföll heilbrigðisstarfsmanna. Af þeim eru ríflega níutíu hjúkrunarfræðingar. Læknir á spítalanum segir ómögulegt að manna stöðurnar ef til uppsagnanna kemur en í mörgum tilfellum er um hjúkrunarfræðinga með langa sérfræðimenntun að ræða. 

„Á gjörgæsludeild Landspítalans fer mjög viðkvæm starfsemi fram þar sem veikustu sjúklingarnir hvíla. Þar starfa 55 hjúkrunarfræðingar en af þeim hafa fimmtán nú þegar sagt upp störfum,“ segir Alma D. Möller, læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans.

Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar starfa á aðgerðasviði Landspítalans en þar starfa einnig hjúkrunarfræðingar á skurðstofum og svæfingadeildum og hefur hluti þeirra einnig sagt upp störfum. 

Alma D. Möller.Vísir/GVA
„Á sviðinu eru 240 hjúkrunarfræðingar. Þannig að þetta er þegar komið yfir tíu prósent og við höldum að það eigi eftir að koma fleiri uppsagnir,“ segir Alma. 

Frá því að lög voru sett á verkföll heilbrigðisstarfsmanna um helgina hafa 118 starfsmenn Landspítalans sagt upp störfum. Þannig hefur 91 hjúkrunarfræðingur sagt upp, 21 geislafræðingur og sex lífeindafræðingar.

„Ég hef miklar áhyggjur af þessu ástandi og það verður að ná samningum við hjúkrunarfræðinga og BHM-félaga,“ segir Alma.

Standi uppsagnirnar mun það skerða þjónustu spítalans mikið. Meðal annars á aðgerðasviði spítalans. „Það yrði ekki hægt að framkvæma eins margar aðgerðir og það yrði ekki hægt að veita eins mörgum sjúklingum gjörgæslumeðferðir eins og nú er,“ segir Alma. 

Af þeim hjúkrunarfræðingum sem sagt hafa starfi sínu lausu eru margir með sérfræðimenntun. Til að mynda sex af átta hjúkrunarfræðingum sem starfa við hjarta- og æðaþræðingar og nær allir hjúkrunarfræðingar sem starfa á hjartaskurðdeild spítalans. 

„Þetta eru allt mjög sérhæfðir hjúkrunarfræðingar. Þeir hafa fyrir utan almennt hjúkrunarnám lokið sérnámi sem oft er tvö ár og síðan tekur þjálfun þeirra líka langan tíma. Það er þegar skortur á þessum starfsstéttum hérlendis,“ segir Alma.

Það verður ekki auðvelt að manna þessar stöður aftur ef hjúkrunarfræðingar standa við uppsagnir?

„Ég held bara að það væri ómögulegt,“ segir Alma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×