Mótmælin hófust klukkan ellefu, rétt áður en hátíðardagskrá hófst þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flutti ávarp til þjóðarinnar.

„Að mótmælin hafi verið þennan dag endurspeglar ákveðið ástand sem verður að bregðast við. En þetta setti svip á hátíðina, því miður,“ segir Dagur.
Viðstaddir héldu á lofti rauðum mótmælaspjöldum og hrópuðu ítrekað í kór „vanhæf ríkisstjórn“ þegar hátíðardagskrá hófst. Köllin mátti heyra greinilega.
Boðað var til umræddra mótmæla í gegnum Facebook með yfirskriftinni „Ríkisstjórnina burt – vér mótmælum öll“.
Mótmælt var meðal annars að lög hafi verið sett á verkföll, að ríkisstjórnin lækki skatta og gjöld á útgerðina á meðan þau fullyrði að ekki séu til peningar í túlkasjóð heyrnarlausra og að ríkisstjórnin hafi svikið kosningaloforð, hvert á fætur öðru.

Ekki er hægt að segja að mannskapurinn á Austurvelli hafi tekið ávarpi forsætisráðherra fagnandi en undir ræðunni allri heyrðist trommusláttur og hróp mótmælenda.
„Mér finnst að það sé hægt að mótmæla flestalla aðra daga en á sjálfum þjóðhátíðardeginum. Sá dagur á að einkennast af gleði,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, en hún er ein af þeim sem finnst það óviðeigandi að mótmæla ríkisstjórninni og aðgerðum hennar á þjóðhátíðardeginum. „Það voru börn á Austurvelli og það er óþarfi að þau þurfi að upplifa reiðina sem er í samfélaginu.“

Lófatak heyrðist þegar ræðunni lauk en áfram heyrðist duglega í mótmælendum yfir tónlistaratriðum.
Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, bendir á að 17. júní sé afmælisdagur Jóns Sigurðssonar sem þekkt er að mótmælti yfirgangi danskra stjórnvalda. „Menn verða að hafa í huga að mótmæli af þessu tagi beinast ekki að hátíðarhöldunum sjálfum. Þetta snýst um andúð gagnvart stjórnvöldum,“ segir Halldór sem telur 17. júní ekki verri en neinn annan dag til mótmæla.