Innlent

Telja lögin brot á stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til að setjast við samningaborðið hvenær sem er.
Hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir til að setjast við samningaborðið hvenær sem er. vísir/vilhelm
„Við gáfum náttúrulega umsögn um lögin og fórum að skoða hvernig þetta sneri að okkur. Svo núna í dag héldum við stjórnarfund og samþykktum að fara þessa leið,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Félagið hyggst fara í mál við ríkið vegna laga sem sett voru á verkfall hjúkrunarfræðinga. Telur félagið að lagasetningin brjóti gegn stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ólafur segir að ef að málið fái flýtimeðferð fyrir dómstólum megi áætla að það taki 4-7 mánuði að fara alla leið upp í Hæstarétt. Takist samningar ekki fyrir 1. júlí mun kjaradeilan fara í gerðardóm.

„Við lítum svo á að ef dómur fellur á þann veg að lögin standast ekki stjórnarskrá þá erum við ekki bundin af niðurstöðu gerðardóms,“ segir Ólafur. Hann segir málsóknina engin áhrif hafa á samningsvilja FÍH.

„Við erum alveg tilbúin til að setjast við samningsborðið hvenær sem er.“

Ekki hefur verið boðað til nýs samningafundar í deilunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×