Enski boltinn

Hyypia: Myndi þiggja starf aðstoðarþjálfara hjá Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hyypia var síðast við stjórnvölinn hjá Brighton í ensku B-deildinni.
Hyypia var síðast við stjórnvölinn hjá Brighton í ensku B-deildinni. vísir/getty
Sami Hyypia, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, segist spenntur fyrir því að starfa sem aðstoðarmaður Brendans Rodgers hjá félaginu.

Miklar breytingar hafa orðið á starfsliði Liverpool að undanförnu en aðstoðarþjálfara liðsins, Colin Pascoe, var m.a. sagt upp störfum. Aðalliðsþjálfarinn Mike Marsh var líka látinn fara.

„Það væri frábært að vinna fyrir félagið sem ég elska,“ sagði Hyypia í samtali við The Times.

„Ég hef að sjálfsögðu áhuga ef Liverpool telur mig geta hjálpað liðinu. Ég á frábærar minningar frá tíma mínum hjá Liverpool.“

Hyypia var síðast við stjórnvölinn hjá Brighton & Hove Albion en hætti þar í desember á síðasta ári eftir að liðið hafði aðeins unnið einn af 18 leikjum. Þar áður stýrði Finninn Bayer Leverkusen, fyrst í samstarfi við Sascha Lewandowski og svo einn síns liðs.

„Ef það eru engin spennandi störf í boði sem knattspyrnustjóri er ég tilbúinn að vera aðstoðarþjálfari,“ sagði Hyypia sem lék 310 deildarleiki með Liverpool.

„Þess konar hlutverk yrði góð reynsla fyrir mig og það væri ekkert vandamál fyrir mig að taka það að mér. Ég er tilbúinn og spenntur að starfa í fótboltanum á ný.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×