Innlent

„Ósvífið og óheiðarlegt að halda því fram að arður okkar af auðlindum hafi minnkað“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. vísir/valli
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gerði mótmæli sem boðað hefur verið til á Austurvelli í dag að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Beindi hann orðum sínum að forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

 

Ræddu þeir stöðuna á vinnumarkaði og yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga sem hefst á miðnætti. Voru Árni Páll og Sigmundur Davíð sammála um að nýir kjarasamningar mættu ekki hleypa óðaverðbólgu af stað.

„Það er ekki þannig að hjúkrunarfræðingar einir beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir verðbólgu, eða þeir einir sem nú eru með opna samninga. Það er auðvitað þannig að ýmsar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa valdið því að við erum ekki að fá hámarksarð af auðlindum okkar, við erum ekki að haga skattheimtunni með eins sanngjörnum hætti og við gætum verið að gera,“ sagði Árni Páll.

Fólk mótmælir spillingu, makrílfrumvarpinu og launaójöfnuði

Árni Páll sagði þessar ákvarðanir valda óróa og reiði í samfélaginu og sagði fólk til að mynda ætla að mótmæla spillingu, makrílfrumvarpinu og launaójöfnuði á Austurvelli. Árni Páll sagði þetta staðreyndir sem forsætisráðherra yrði að taka alvarlega.

„Ef háttvirtur þingmaður hefur áhuga á staðreyndum þá skal ég nefna hér tvær: tekjujöfnuður á Íslandi er einhver sá mesti í heimi og hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. [...] Ef háttvirtur þingmaður hefur áhuga á öðrum staðreyndum þá má benda háttvirtum þingmanni á að það er ekki aðeins rangt, heldur beinlínis ósvífið og óheiðarlegt, að halda því fram að arður okkar af auðlindum hafi minnkað. Arður samfélagsins af sjávarútvegi [...] hefur aldrei verið meiri en nú.“

Þá ítrekaði forsætisráðherra þá staðreynd að í kjaradeilunum yrðu menn að sjá í hvað stefndi á almenna vinnumarkaðnum áður en samið yrði við opinbera starfsmenn um miklu meiri hækkanir en lagt hefur verið upp með.

Umræður formanns Samfylkingarinnar og forsætisráðherra má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×