Enski boltinn

Toure, Nasri, Jovetic, Kolarov eða Dzeko í boði fyrir Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba.
Paul Pogba. Vísir/Getty
Manchester City hefur mikinn áhuga á því að fá til sín Paul Pogba frá Juventus en þessi ungi og frábæri franski miðjumaður er einn eftirsóttasti leikmaðurinn í heiminum í dag.

The Guardian slær því upp í morgun að Manchester City sé svo sólgið í leikmanninn að félagið bjóði ekki bara stóra peningaupphæð heldur einnig öflugan leikmann í kaupbæti.

Manchester City á að hafa boðið ítölsku meisturunum leikmenn eins og Yaya Touré, Samir Nasri, Stevan Jovetic, Aleksandar Kolarov eða Edin Dzeko. Það fylgir fréttinni hjá Guardian að þeir gætu orðið fleiri en einn.

Paul Pogba er verðlagður á 100 milljónir evra í evrópskum fjölmiðlum en þessi 22 ára strákur er líklegur til að vera einn allra öflugasti miðjumaður heims næsta áratuginn.

Real Madrid, Barcelona, Paris Saint-Germain og Manchester United hafa öll áhuga á leikmanninum sem yfirgaf herbúðir Manchester United fyrir þremur árum. Paul Pogba sjálfur hefur mestan áhuga á því að fara tl Real Madrid.

Juventus segist ekki vilja selja leikmanninn en komi risaboð í leikmanninn er þó einhverjar líkur á því að hann verði seldur í sumar. Juve getur ekki keppt við stórliðinu hvað varðar launamálin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×