Enski boltinn

Enginn leikmaður er öruggur hjá Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hver fær sparkið hjá Mauricio Pochettino?
Hver fær sparkið hjá Mauricio Pochettino? Vísir/Getty
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, ætlar greinilega að hreinsa vel til í herbúðum félagsins ef marka má orð hans í viðtali við BBC.

Pochettino er að klára sitt fyrsta tímabil á White Hart Lane og félagið situr í sjötta sæti og tíu stigum frá hinu eftirsótta Meistaradeildarsæti þegar aðeins tveir leikir eru eftir af tímabilinu.

Pochettino ætlar sér að búa til lið í sumar sem getur komið Tottenham í Meistaradeildina en til þess þarf hann að fara vel yfir þetta tímabil og gera mögulega fullt af breytingum.

„Það er alltaf nauðsynlega að fara vel yfir síðasta tímabil. Við þurfum að horfa fram á veginn og við þurfum að læra af fortíðinni," sagði Mauricio Pochettino við BBC.

„Það er enginn leikmaður öruggur með að vera áfram. Við höfum sett saman áætlun um næstu ár og við verðum að fara að ná þeim markmiðum," sagði Mauricio Pochettino sem stýrði áður Southampton.

Tottenham seldi Gareth Bale fyrir 85 milljónir punda sumarið 2013 og keypti í staðinn leikmennina Roberto Soldado, Paulinho, Vlad Chiriches og Etienne Capoue sem hafa allir ollið vonbrigðum hjá félaginu.

Pochettino tók við síðasta sumar og leikmennirnir sem hann fékk til félagsins, varnarmennirnir Federico Fazio og Ben Davies sem og miðjumaðurinn Benjamin Stambouli, hafa heldur ekki stimplað sig inn á White Hart Lane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×