Enski boltinn

Welbeck ekki með á móti Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney þarf ekki að hafa áhyggjur af Danny Welbeck á sunnudaginn.
Wayne Rooney þarf ekki að hafa áhyggjur af Danny Welbeck á sunnudaginn. Vísir/Getty
Enski landsliðsframherjinn Danny Welbeck verður ekki með Arsenal í leiknum á móti Manchester United en liðin mætast á Old Trafford á sunnudaginn í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Það var vitað að Welbeck væri tæpur fyrir leikinn og knattspyrnustjórinn Arsene Wenger staðfesti það síðan á blaðamannafundi í dag að leikmaðurinn væri ekki leikfær.

Welbeck fær því ekki annað tækifæri til að sýna Louis Van Gaal hvað hann missti af þegar hann seldi leikmann til Arsenal síðasta haust.

Danny Welbeck er meiddur á hné og þetta verður þriðji leikurinn í röð sem hann missir af. Hann er ekki búinn að skora í síðustu átta deildarleikjum sínum eða eftir að hann meiddist í upphafi ársins.

Danny Welbeck kom til Arsenal frá Manchester United í haust en hann lék fimm tímabil með Manchester United og skoraði þá 20 mörk í 92 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og varð tvisvar sinnum enskur meistari.

Welbeck hefur skorað 8 mörk í 31 leik í öllum keppnum með Arsenal á sínu fyrsta tímabili þar á meðal sigurmarkið á móti Manchester United í bikarleik liðanna á Old Trafford í mars.

Markið hans á Old Trafford er síðasta markið sem Danny Welbeck skoraði í Arsenal-búningnum og jafnframt það eina sem hann hefur skorað fyrir félagið á árinu 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×