Enski boltinn

Miðvörður Middlesbrough hetjan í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jelle Vossen skoraði fyrra mark Middlesbrough og fagnaði vel.
Jelle Vossen skoraði fyrra mark Middlesbrough og fagnaði vel. Vísir/Getty
Varamaðurinn Fernando Amorebieta tryggði Middlesbrough 2-1 útisigur á Brentford í fyrri undanúrslitaleik liðanna í umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en leikurinn fór fram á heimavelli Brentford.

Middlesbrough er í fínum málum en seinni leikurinn verður á heimavelli liðsins. Það lið sem hefur betur mætir annaðhvort Norwich eða Ipswich á Wembley í hreinum úrslitaleik um sætið í úrvalsdeildinni.

Brentford hefur komið öllum á óvart í vetur á sínu fyrsta tímabili í ensku b-deildinni í 22 ár en liðið hefur ekki spilað í efstu deild á Englandi síðan 1947. Útlitið er hinsvegar ekki bjart eftir úrslit kvöldsins en Brentford átti miklu meira skilið úr þessum leik. Middlesbrough-liðið hefur ekki spilað í ensku úrvalsdeildinni síðan að liðið féll vorið 2009.

Fernando Amorebieta kom inná sem varamaður og skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótartíma leiksins. Varnarmenn Brentford gleymdu honum í hornspyrnu og hann skoraði gríðarlega mikilvægt mark.

Dimi Konstantopoulos, gríski markvörðurinn í liði Middlesbrough, hafði áður fært Brentford jöfnunarmark á silfurfati á 54. mínútu en Andre Gray nýtti sér það vel og bætti um leið fyrir klúður sitt skömmu áður. Það er hægt að sjá það mark hér fyrir neðan.

Jelle Vossen skoraði eina mark fyrri hálfleiksins þegar hann kom Middlesbrough í 1-0 á 26. mínútu. Brentford var betra liðið í seinni hálfleiknum en uppskar á endanum ekkert úr þessum leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×