Enski boltinn

Falcao aðeins í viðræðum við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Falcao í leiknum gegn Chelsea um helgina.
Falcao í leiknum gegn Chelsea um helgina. Vísir/Getty
Sem stendur standa aðeins yfir viðræður á milli Monaco og Manchester United um framtíð kólumbíska framherjans Radamel Falcao.

Falcao er í láni hjá United en hefur valdið vonbrigðum. Hann hefur aðeins skorað fjögur mörk í 25 leikjum með liðinu á tímabilinu.

„Við eigum ekki í viðræðum við neitt annað lið sem stendur, jafnvel þó svo að önnur stór félög hafi áhuga,“ sagði Vadim Vasilyev, varaforseti Monaco. Hann segir að félagið sé í raun að bíða eftir ákvörðun United um framhaldið.

„Ég hitti forráðamenn United á sunnudag og þeir hafa ekki ákveðið hvort þeir ætla að nýta sér forkaupsréttinn á honum,“ bætti Vasilyev við en samkvæmt samkomulagi félaganna yrði United að kaupa Falcao á 43,5 milljónir punda - jafnvirði 6,4 milljarða króna.

„Tímabilið í ár hefur ekki verið hans besta en þeir vilja enn eiga þann möguleika að meta stöðuna í lok tímabilsins.“

Varaforsetinn greindi enn fremur frá ástæðum þess að Falcao bað um að fara frá Monaco í sumar.

„Það gekk ekki vandræðalaust fyrir sig. Hann átti í vandræðum með stjórann [Claudio Ranieri] og ríkti ekki mikill skilningur á milli þeirra. Hann var líka að koma til baka eftir erfið meiðsli og tilkynnti okkur síðla í ágúst að hann vildi spila í sterkari deild.“

Falcao er 29 ára gamall og varð einn eftirsóttasti framherji heims er hann skoraði 68 mörk í 86 leikjum með Atletico Madrid frá 2011 til 2013.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×