Enski boltinn

Louis van Gaal vildi ekki taka við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, með Ryan Giggs og David Beckham.
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, með Ryan Giggs og David Beckham. Vísir/Getty
Ensk blöð slá því upp í morgun að Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United hafi hafnað því að taka við liði Liverpool á sínum tíma en Liverpool og United mætast einbeitt á eftir í stórleik helgarinnar.

Leikurinn fer fram á Anfield í Liverpool en með sigri getur Liverpool náð fjórða sætinu af liði Manchester United.

Daily Star og fleiri blöð segja frá þessu í dag en Liverpool vildi fá Louis van Gaal þegar félagið var að leita sér að knattspyrnustjóra fyrir þremur árum.

Van Gaal sagði blaðamanni Daily Star að hann hafi verið í viðræðum við Liverpool á þessum tíma en að ekkert samkomulag náðist.

„Það er hvorki gott fyrir mig né Liverpool að rifja upp hluti sem tilheyra fortíðinni," sagði Louis van Gaal við Daily Star.

Liverpool endaði á því að ráða Brendan Rodgers sem hefur síðan gert mjög góða hluti með Liverpool.

Van Gaal kom loksins í enska boltann síðasta sumar þegar hann hætti með hollenska landsliðið og tók við stjórnartaumunum á Old Trafford.

Louis van Gaal stýrði Manchester United til 3-0 sigurs á móti Liverpool í fyrri viðureign liðanna fyrir jól.



Leikur Liverpool og Manchester United hefst klukkan 13.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Stöð 2 Sport 2 HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×