Enski boltinn

Dómur í máli Skrtel felldur í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Martin Skrtel, varnarmaður Liverpool, neitar fyrir það að hafa stigið viljandi á David De Gea, markverði Manchester United, í leik liðanna um helgina.

Atvikið átti sér stað undir lok leiksins þegar að Skrtel var að elta sendingu inn í teig United. Hann naði ekki til boltans og steig ofan á De Gea.

Martin Atkinson, dómari leiksins, sá ekki atvikið og var því málið tekið upp af aganefnd enska knattspyrnusambandsins sem kærði Skrtel. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér þriggja leikja bann.

Skrtel segir að um óviljaverk hafi verið að ræða og kemur í ljós í dag hvort að aganefndin taki skýringar hans trúanlegar.

Verði hann dæmdur í bann mun hann missa af leikjum Liverpool gegn Arsenal og Newcastle í deildinni, sem og Blackburn í ensku bikarkeppninni.

Steven Gerrard mun missa af þessum leikjum þar sem að hann fékk að líta beint rautt spjald í leiknum gegn United, aðeins fáeinum sekúndum eftir að hann kom inn á sem varamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×