Innlent

Kafarar leituðu að munum konunnar sem fannst látin

Birgir Olgeirsson skrifar
Kafarar leituðu að munum konunnar sem fannst látin í sjónum við Sæbraut í Reykjavík í gær.
Kafarar leituðu að munum konunnar sem fannst látin í sjónum við Sæbraut í Reykjavík í gær. Vísir/Stefán Karlsson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur notið aðstoðar kafarar við leit að munum sem tilheyrðu konunni sem fannst látin í sjónum við listaverkið Sæfara í Reykjavík.

„Það var verið að leita af sjó með fram ströndinni austur að Laugarnestanga. Það er verið að leita að ummerkjum eða munum sem tengjast þessum líkfundi. Það hefur ekki borið árangur enn,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um málið í samtali við Vísi.

Vonast lögreglan meðal annars til þess að finna skilríki eða eitthvað sem tilheyrði konunni en Friðrik segir lögregluna meta það eftir því sem málinu vindur fram hvort notast verður áfram við kafara. „Það er búið að leita í allan dag og þyrlan hefur flogið í tvígang í leit en það hefur ekki borið árangur,“ segir Friðrik Smári.

Lögreglan óskaði fyrr í dag eftir upplýsingum frá almenningi og sagði konuna hafa verið um sextugt, 165 sentímetrar á hæð, um það bil 80 kíló og með ljóst stutt hár. Hún var með gyllt armband á vinstri úlnlið og áberandi ör á hægri fæti.

Ekki er talið að andlát hennar hafi borið að með saknæmum hætti. Talið var að hún hefði látist innan við sólarhring áður en hún fannst. Friðrik segir lögreglu hafa borist talsvert af ábendingum og er verið að kanna þær. „Það hefur hins vegar ekki leitt til þess að kennsl hafa verið borin á konuna.“

Þeir sem kunna að geta gefið upplýsingar um konuna eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×