Enski boltinn

Rodgers bjóst við því að vera rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers talar við sína menn.
Brendan Rodgers talar við sína menn. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, var alls ekki öruggur um framtíð sína hjá félaginu þegar verst gekk hjá liðinu fyrir áramót. Hann viðurkennir þetta í viðtali við Sky Sports.

Útlitið var verst eftir 3-1 tap á móti Crystal Palace í nóvember en það var þriðja tap liðsins í röð og eftir leikinn sat Liverpool-liðið í tólfta sæti deildarinnar.

„Eftir Palace-leikinn leið mér þannig að það skipti ekki máli hversu mikinn stuðning ég hefði. Svona frammistaða gengi ekki mikið lengur," sagði Brendan Rodgers.

„Ég ætlaði samt ekki að gefast upp. Ég mun alltaf berjast fyrir mínu. Ég elska að vera hér hjá Liverpool og vil ná árangri hér," sagði Rodgers.

„Ég gerði mér vel grein fyrir stöðunni því reynsla mín frá Reading kenndi mér það. Ég lærði af því að vera rekinn þaðan. Ég var hjá Reading með fullan stuðning frá stjórnarformanninum sem reyndist mér vel en ég fékk samt bara 20 leiki," sagði Brendan Rodgers.

„Það sem ég lærði er að það skiptir ekki máli hversu mikinn stuðning þú hefur frá stjórninni, eigendunum eða öðrum sem ráða því þú verður að ná úrslitum og þú verður að vinna leiki," sagði Brendan Rodgers.

„Ég varð hreinlega að fara að taka ákvarðanir sem kæmu okkur aftur nálægt því þar sem við vorum áður. Það hefur síðan verið frábært að sjá breytinguna á liðinu. Ég hefði átt að gera þetta fyrr," sagði Rodgers.

Liverpool vann 2-1 sigur á Englandsmeisturum Manchester City um síðustu helgi, hefur ekki tapað í síðustu ellefu deildarleikjum sínum, unnið sex af síðustu sjö og mætir Burnley á Anfield í kvöld.

Brendan Rodgers fagnar sigrinum á móti Manchester City.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×