Innlent

Hæstiréttur staðfestir milljóna kröfur sjómanna

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær þrjá dóma þar sem útgerðir voru dæmdar til að greiða þremur sjómönnum vangreidd laun.

Héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt útgerðina Lukku ehf. til að greiða skipstjóra og háseta sem voru á bátnum Narfa SU - 68, Stöðvarfirði, um nokkurra mánaða skeið milljónir króna vegna vangoldins aflahlutar. Skipstjórinn og hásetinn komust að því útgerðin hafði ekki miðað uppgjör launa þeirra við heildarverðmæti aflans heldur aðeins við 70 prósent aflaverðmætis.

Töldu þeir enga stoð fyrir slíku, hvorki í lögum né kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags vélstjóra og málmtæknimanna annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar um kaup og kjör á smábátum.

Verðlagsstofa taldi að þar sem Narfi SU - 68 tilheyrði Landssambandi smábátaeigenda hefði Lukku ehf. ekki verið heimilt að draga 30 prósenta olíukostnað frá aflaverðmæti áður en til skipta kom og féllst Héraðsdómur Reykjaness á þau sjónarmið.

Var Lukka því dæmd til að greiða skipstjóranum, sem var lögskráður á bátinn frá 22. júní árið 2012 til 26. febrúar árið 2013, tæpar þrjár milljónir í bætur auk dráttarvaxta en hásetinn, sem var lögskráður á bátinn 24. janúar árið 2012 til 6. febrúar árið 2013, fékk  1,5 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Þá staðfesti Hæstiréttur í gær einnig dóm Héraðsdóms Austurlands sem dæmdi Ölduós ehf. til að greiða skipverja á Dögg SU-118, sem er gerð út frá Stöðvarfirði, 1,5 milljónir króna auk dráttarvaxta en krafa skipverjans var sú sama og þeirra á Narfa SU-68.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×