Lífið

FM95BLÖ: „Mér fannst þú syngja vel, en það var greinilega ekki nóg“

Bjarki Ármannsson skrifar
„Ég er stressaðari núna en ég var á laugardaginn,“ sagði María Ólafsdóttir í útvarpsþættinum FM95BLÖ áður en hún var látin framkvæma símaat í Friðriki Dór Jónssyni, sem hún keppni við í úrslitaeinvígi forkeppni Eurovision. Þar bar María sigur úr býtum en í þættinum var hún látin hringja í Friðrik og gorta sig af sigrinum.

„Mér fannst þú syngja lagið hrikalega vel ... en það var greinilega ekki nóg á laugardaginn,“ var meðal þeirra pínlegu setninga sem þáttastjórnendurnir Auðunn Blöndal og Steindi Jr. létu Maríu fara með fyrir Friðrik, sem var meira að segja veikur þegar hringt var í hann. Þá var María einnig neydd til að minna Friðrik á að hún hefði unnið hann með fimmtán þúsund atkvæðum.

María stóð sig með prýði en sprakk að lokum úr hlátri þegar hún sagði Friðriki að hann mætti ekki rífa buxurnar sínar aftur þegar hann syngur bakraddir með henni á aðalkeppninni, enda var samtalið orðið í meira lagi óþægilegt á þeim tímapunkti.

„Ég svitnaði fyrir þig þarna, þetta er eitt óþægilegasta símtal sem ég hef heyrt,“ sagði Auðunn þegar í ljós kom að um grín var að ræða. „Og Frikki veikur í þokkabót!“

Þetta frábæra innslag má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×