Lífið

María Eurovisionfari: „Þetta kom virkilega á óvart"

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
María Ólafsdóttir, söngkona.
María Ólafsdóttir, söngkona. VISIR/ERNIR
Það var rafmögnuð spenna í Háskólabíói í gærkvöldi þegar tilkynnt var um hvert yrði framlag Íslendinga í Eurovision keppninni en hún fer fram í Austurríki í ár. María Ólafsdóttir sigraði á endanum með laginu Unbroken en hún er 22 ára gömul söngkona úr Mosfellsbæ. Lag og texta gerðu félagarnir í StopWaitGo þeir Ásgeir Orri Ásgeirsson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Sæþór Kristjánsson.

En hvernig var tilfinning að vakna í morgun sem fulltrúi Íslands í Eurovision?

„Það var mjög skrýtið, ég er bara ekki ennþá búin að meðtaka þetta,“ segir María.

Kom þetta á óvart?

„Þetta kom virkilega á óvart. Það voru svo margir góðir keppendur þannig að ég hafði enga hugmynd um hvernig þetta myndi fara.“

Eitt af því sem vakti athygli á samfélagsmiðlum í gær var sú staðreynd að María heldur mikið upp á hljómsveitina Írafár.

„Ég hélt alltaf rosalega mikið upp á Írafár og Birgittu Haukdal. Hún var goðsögnin mín þannig að þetta var bara svona það fyrsta sem mér datt í hug,“ segir María og hlær.

Ekki hefur verið ákveðið hvort gerðar verði breytingar á laginu en þær yrðu þó ekki miklar. Hún segist lítið stressuð fyrir þeirri tilhugsun að syngja fyrir tæplega 200 milljónir áhorfenda.

„Maður verður bara að einbeita sér að því að syngja fyrir myndavélina og ímynda sér að maður sé bara ein inni í herbergi að syngja,“ segir María.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×