Innlent

Sigurður Einarsson segir að dómsmorð hafi verið framið í Hæstarétti

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigurður heldur fram sakleysi sínu og segist hvergi finna vísun í sannanir um að hann sé sekur í dómi Hæstaréttar.
Sigurður heldur fram sakleysi sínu og segist hvergi finna vísun í sannanir um að hann sé sekur í dómi Hæstaréttar. Vísir
Sigurður Einarsson segir að umræðan um dóm Hæstaréttar yfir sér og fyrrverandi samstarfsmönnum sínum í Kaupþingi einkennist af því að þeir eigi allt vont skilið. Þetta segir hann í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag en þar kallar hann dóm Hæstaréttar dómsmorð.

Sjá einnig: Dómur fallinn í Al-Thani málinu

Sigurður, sem var stjórnarformaður Kaupþings banka í aðdraganda hrunsins, fékk fjögurra ára fangelsi í Hæstarétti í síðustu viku fyrir þátt sinn í Al-Thani málinu. Hann segir að andrúmsloftið á Íslandi sé þannig að það gagnist honum ekki að barma sér í fjölmiðlum yfir því dómsmorði sem hann telur að hafi verið framið, eins og hann orðar það í greininni. Hann segist trúa því að sagan muni sjá um að dómurinn fái verðug eftirmæli.

Í greininni gagnrýnir Sigurður að Hæstiréttur hafi ekki fjallað um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur heldur kveðið upp nýjan dóm með litla tengingu við dóm héraðsdóms. Hann segist ekki fá betur séð en að dómstóllinn hafi afnumið regluna um tvö dómstig og komið í veg fyrir að hann geti áfrýjað niðurstöðu Hæstaréttar, sem sé önnur en niðurstaða hins áfrýjaða héraðsdóms.

Sjá einnig: Vill fara með málið fyrir Mannréttindadómstól

Sigurður heldur fram sakleysi sínu og segist hvergi finna í dómi Hæstaréttar vísun í sannanir um sekt sína. Hann segir að Hæstiréttur kjósi að líta algerlega fram hjá framburði vitna sem komu fyrir dóminn sem öllum hafi borið saman um að hann hafi ekki haft aðkomu að Al-Thani málinu.


Tengdar fréttir

Dómur Hæstaréttar

Hæstiréttur dæmdi mig í fjögurra ára fangelsi í síðustu viku í svokölluðu Al Thani-máli. Sennilega er andrúmsloftið á Íslandi þannig að það gagnist mér ekkert að barma mér í fjölmiðlum yfir því dómsmorði sem ég tel að þar hafi verið framið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×