Enski boltinn

Lambert: Gat ekki tekið ákvörðun um framtíðina á fimm tímum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rickie Lambert verður hjá Liverpool út tímabilið að minnsta kosti.
Rickie Lambert verður hjá Liverpool út tímabilið að minnsta kosti. vísir/getty
Rickie Lambert, framherji Liverpool, gat farið til Aston Villa á lokadegi félagaskiptagluggans í janúar en ákvað að berjast fyrir sæti sínu hjá Liverpool.

Heimkoma Lamberts hefur ekki verið neitt sérstök. Hann hefur skorað þrjú mörk í 26 leikjum og aðeins byrjað tíu leiki.

Aston Villa vildi ólmt fá hann í sínar raðir og var Birmingham-félagið tilbúið að bjóða Lambert tveggja og hálfs árs samning. Hann hafnaði því á síðustu stundu.

„Ég fékk símtal frá Brendan Rodgers klukkan fjögur á lokadegi félagaskipta. Hann sagði mér að Aston Villa hafði áhuga,“ segir Lambert í viðtali við Liverpool Echo.

„Stjórinn sagði að hann vildi ekki sleppa mér, en bauð mér að fara ef ég vildi spila reglulega. Það fannst mér sanngjarnt af honum.“

„Ég talaði við umboðsmanninn minn, konuna mína og mennina hjá Villa. Það munaði mjög litlu að ég færi því það var búið að samþykkja allt.“

„En á endanum var þetta ekki nægur tími fyrir mig til að segja já. Ég gat ekki tekið ákvörðun um næstu tvö ár í lífi mínu á fjórum til fimm klukkutímum. Ég þarf heldur ekki bara að hugsa um mig heldur fjölskylduna mína. Þetta var bara eitthvað sem ég gat ekki gert,“ segir Rickie Lambert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×