Innlent

Bjartsýnn á að öll börn fái sólmyrkvagleraugu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Ég ætla að leita allra leiða til að koma gleraugunum til allra. Það er engin spurning,“ segir Sævar Helgi Bragason.
"Ég ætla að leita allra leiða til að koma gleraugunum til allra. Það er engin spurning,“ segir Sævar Helgi Bragason. vísir/anton
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, er bjartsýnn á að öll grunnskólabörn landsins fái tækifæri til að berja sólmyrkvann augum hinn 20. mars næstkomandi. Hann fundaði með fulltrúum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á fimmtudag og segir þá hafa tekið vel í verkefnið. Ákvörðunin verði líklega sett í hendur skólastjórnenda.

„Ég ætla sjálfur persónulega að hringja í alla skólastjórnendur á Íslandi til þess að segja þeim frá verkefninu, kynna það fyrir þeim og kynna hversu einstakt þetta er á heimsvísu. Það hefur aldrei neitt svona verið gert í neinu landi, að hver einasti grunnskólanemi fái tækifæri til að berja sólmyrkva augum, á öruggan hátt,“ segir Sævar.

Sjá einnig: Vill að reykvísk börn fái líka að njóta sólmyrkvans

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness í samvinnu við Hótel Rangá hyggst gefa öllum grunnskólabörnum landsins, sem eru um 45 þúsund talsins, sérstök hlífðargleraugu í tilefni almykvans. Sólmyrkvar af þessu tagi eru afar sjaldgæfir og verður þessi sá dimmasti á Íslandi í sextíu ár.

Sólmyrkvagleraugu eru þó nauðsynleg þeim sem vilja upplifa þennan stórmerka atburð því augun eru afar viðkvæm fyrir geislum sólarinnar. Þeir sem af sólmyrkvanum missa þurfa að bíða í ellefu ár eftir næsta tækifæri.



Svona mun sólmyrkvinn líta út, séður úr Reykjavík, þegar hann nær hámarki klukkan 9.37, föstudaginn 20. mars. Örþunn rönd mun þá sjást af sólinni.
Einstakt á heimsvísu

„Þetta er einstakt á heimsvísu. Þetta hefur hvergi verið gert – að allir nemendur í einu landi fái tækifæri til að berja sólmyrkva augum, á öruggan hátt að sjálfsögðu. Þannig að ég ætla að hringja í alla skólastjóra og spyrja þá hvernig þeir geta virkjað náttúrufræðikennara hjá sér til þess að til dæmis taka vikuna fyrir myrkvann að læra um sólina, tungið og jörðina og gera þá tilraunir á hlutum sem tengjast þessu öllu,“ segir Sævar. 

„Þetta auðvitað tengist menningu okkar á svo rosalega djúpan og stóran hátt í sjálfu sér. Þannig að ég ætla að leita allra leiða til að koma gleraugunum til allra. Það er engin spurning,“ segir hann að lokum og bætir við að fulltrúar frístundasviðs muni funda um málið, öðru sinni, á morgun. 


Tengdar fréttir

Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá árinu 1954

Sólmyrkvi, sá mesti hérlendis í sextíu ár, verður þann 20. mars næstkomandi, eftir tæpa þrjá mánuði, - þá rökkvast himinn í nokkrar mínútur þegar venjulega er hábjartur dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×