Innlent

Situr hjá vegna „öfgastefnu“ Framsóknar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
S. Björn Blöndal segir Framsókn vísvitandi hafa unnið sér inn fylgi á forsendum fordóma.
S. Björn Blöndal segir Framsókn vísvitandi hafa unnið sér inn fylgi á forsendum fordóma.
Kosið verður um nýjan varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar á borgarstjórnarfundi í nótt. Farið var í atkvæðaskýringu og lýsti Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, því yfir að hann myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. Það gerði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, einnig sem og Halldór Auðar Svansson pírati.

Sigurður Björn Blöndal sagði það hafa verið ábyrgðaleysi af hálfu fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina, þeirra Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, að hafa skipað Gústaf Níelsson í mannréttindaráð. Það væri vegna öfgafullra skoðana hans og sagði flokkinn „daðra við öfgastefnu og rasisma.“ Flokkurinn hafi vísvitandi unnið sér inn fylgi á forsendum fordóma og að þeirri stefnu hefði aldrei verið afneitað, „aðeins slegið í og úr.“

Sóley Tómasdóttir sagðist jafnframt ætla að sitja hjá og sagði borgarfulltrúum Framsóknar ekki treystandi til að tilnefna aðila í mannréttindaráð. Hún myndi ekki taka ábyrgð á tilnefningum þeirra „nema eitthvað stórkostlegt gerist og þær breyti skoðun sinni.“ Ekki megi ljá mönnum sem Gústafi rödd í mannréttindaráði, það sé andstætt allri þeirri hugmyndafræði sem hún standi fyrir. Þá er Halldór Auðar Svansson einnig á meðal þeirra sem mun sitja hjá og sagði flokkinn verða að skýra stefnu sína.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina, sagði að mikilvægt væri að leyfa röddum allra að heyrast. „Ekki bara raddirnar sem við viljum heyra [...] Stefnan er skýr. Framsóknarflokkurinn líður enga mismunun,“ sagði hún.

Gústaf Níelsson var á síðasta fundi borgarstjórnar skipaður varamaður í mannréttindaráð með tíu atkvæðum. Nú liggur þó fyrir að hann mun ekki taka sæti en verður Gréta Björg Egilsdóttir skipuð í hans stað. Hún lýsti því yfir á fundinum í kvöld að hún tæki ekki undir skoðanir Gústafs.

Fundurinn stendur enn yfir, en á hann má horfa í beinni útsendingu á vef Reykjavíkurborgar.


Tengdar fréttir

Skipan Gústafs dregin til baka

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina hafa ákveðið að draga til baka skipan varafulltrúa síns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Ræddi skipan Gústafs við borgarfulltrúa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hitti fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina á fundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×