Innlent

Sveinbjörg tjáir sig ekki um gagnrýni á skipun Gústafs

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina, vill ekki tjá sig um gagnrýni forystu Framsóknarflokksins á skipan borgarstjórnarflokksins á Gústaf Níelssyni í sæti varamanns í mannréttindaráð borgarinnar. Skipunin var afturkölluð eftir að forystumenn flokksins gagnrýndu hana harðlega en Gústaf hefur sætt harðri gagnrýni fyrir ummæli sín um múslíma og samkynhneigða.

Hvernig leggst þessi gagnrýni í þig? „Það eru engin komment. Fundurinn er búinn að dragast um hálftíma og ég er þegar með bókaðann fund þar sem ég er orðin hálftíma of sein og ég er ekki að fara að segja neitt við fjölmiðlamenn um þetta,“ svaraði Sveinbjörg Birna sem þá var að ganga út af fundi borgarráðs.

Eftir að skipun Gústafs var afturkölluð sagði Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, frá samskiptum sínum við borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um skipunina. Sagðist hann hafa fengið það svar frá Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar, að þetta hefði átt að vera sniðugt.

„Það er aumt af Birni Blöndal að setja einkaumræður á Facebook hjá sér,“ sagði Sveinbjörg aðspurð um ummæli Björns. Þetta var semsagt ekki brandari? „Ég er búin að segja þér að ég ætla ekki að svara þessu,“ sagði Sveinbjörg þegar fréttamaður gekk á eftir svari. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×