Fótbolti

Þjálfar Guardiola Katarliðið á HM 2022?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. Vísir/Getty
Þýskir fjölmiðlar fjalla um það í morgun að Pep Guardiola, þjálfari Bayern München og fyrrum þjálfari Barcelona, verði mögulega næsti landsliðsþjálfari Katar.

Pep Guardiola skrifaði undir þriggja ára samning við Bayern München árið 2013 en hefur enn ekki framlengt samning sinn við þýska liðið.

Bayern München vann tvöfalt undir stjórn Pep Guardiola á hans fyrsta tímabili í Þýskalandi og er með góða forystu þegar þýska deildin er meira en hálfnuð.

Forsíðufrétt Sport Bild var um það að Pep Guardiola léti hugsanlega freistast af risatilboði frá Katarmönnum sem munu halda heimsmeistarakeppnina árið 2022.

Samingur Guardiola rennur út sumarið 2016 og þá eru enn tvö ár í HM í Rússlandi og sex ár í HM í Katar.

Pep Guardiola hefur komið við í Katar því hann endaði leikmannaferil sinn á því að spila tvö tímabil með liði Al-Ahli og hann var einn af þeim sem börðust fyrir því að Katar fengi HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×