Innlent

Sveinbjörg segir skiljanlegt að framganga hennar verði rædd á flokksþingi

Heimir Már Pétursson skrifar
Oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík segir skiljanlegt að margir framsóknarmenn vilji ræða framgöngu oddvita flokksins í borginni á flokksþingi í apríl. Hún missi þó ekki svefn vegna þessarar gagnrýni og hafi ekki gríðarlegar áhyggjur af henni, enda ágreiningur í öllum flokkum um einstaka menn.

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti Framsóknarflokksins í borginni ræddu málefni borgarinnar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þau ræddu aðallega málefni Strætó en Sigurjón M. Egilsson spurði Sveinbjörgu einnig út í þá gagnrýni sem hún og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi hafa hlotið að undanförnu frá samflokksmönnum. Margir flokksmenn kalli eftir uppgjöri við þær á landsþingi Framsóknarflokksins í apríl.

„Er þetta ekki bara eðlileg krafa, að fólk fái að segja sína skoðun? Ég skil alveg framsóknarmenn að einhverju leyti. Það hefur gustað mikið um okkur: okkur hefur verið sett orð í munn oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ segir Sveinbjörn Birna.

Mest hafi gagnrýnin beinst að henni en Guðfinna Jóhanna verið dregin með inn í umræðuna. Landsþing sé rétti vettvangurinn fyrir flokksbundna framsóknarmenn sem hafi áhyggjur af framgöngu hennar og Guðfinnu til að viðra skoðanir sínar.

„Ég hlakka bara til þeirrar umræðu. Það er ósætti í öllum flokkum um framgöngu ákveðinna fulltrúa. Það er það alltaf. Ég er alla vega ekki að missa svefn yfir þessu eða hef einhverjar gríðarlegar áhyggjur,“ segir Sveinbjörg.

Hún hafi farið í pólitík vegna þess að hún vildi berjast fyrir ákveðnum málum og ekki grunað að stjórnmálin væru sú ljónagryfja sem þau væru. Sveinbjörg segist hafa gert hreint fyrir sínum dyrum í fjölmiðlum. Meirihlutinn í borginni noti hvert tækifæri til að fara í manninn en ekki málefnin.

Sveinbjörg sagði úlfúð hafa verið í flokknum allt frá því í kosningabaráttunni síðast liðið vor og því ekki orðið til með skipan Gústafs Adolfs Níelssonar í mannréttindaráð borgarinnar. Sú skipan hafi verið mistök og skipanin því dregin til baka sama dag og hún og Guðfinna áttu fund með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni flokksins.

„Við vorum búin að taka ákvörðunina áður og búin að gefa út þessa yfirlýsingu, það er að segja ekki gefa hana út en við vorum búin að skrifa hana um morguninn áður en við fórum á fund með Sigmundi,“ sagði Sveinbjörg.

„Hann lagði hart að ykkur að fylgja þessu eftir,“ sagði Sigurjón þá og Sveinbjörg svaraði: „Það voru alveg skýrar línur já.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×