Innlent

Mega styðjast við Facebook-samskipti í máli Skeljagrandabróðurs

Birgir Olgeirsson skrifar
Húsráðandi sagðist eiga tölvuna en Kristján hefði verið að nota hana. Tók lögreglan þá ákvörðun að skoða og mynda samskiptin sem þar komu fram sem voru á milli Kristjáns og brotaþola í málinu.
Húsráðandi sagðist eiga tölvuna en Kristján hefði verið að nota hana. Tók lögreglan þá ákvörðun að skoða og mynda samskiptin sem þar komu fram sem voru á milli Kristjáns og brotaþola í málinu. Vísir/Getty
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu má leggja fram Facebook-samskipti Kristjáns Markúsar Sívarssonar sem sönnungargagn við réttarhöld yfir Kristjáni. Verjandi Kristjáns hafði kært úrskurð Héraðsdóms Reykjaness til Hæstaréttar en kröfu Kristjáns um að ákæruvaldinu verði synjað um framlagningu þessara rannsóknargagna var hafnað í héraði.

Hæstiréttur sagði kæruna ekki fullnægja skilyrðum lagaákvæðis og því var henni vísað frá.  Kristján er ákærður fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga, vopnalaga og almennra hegningarlaga. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa veist að konu á bílastæði og slegið hana ítrekað hnefahögg í andlit, höfuðið og á hendur og úlnlið. Facebook-samskiptin sem á að leggja fram sem sönnunargagn eru á milli hans og brotaþolans en lögreglan komst yfir þau þegar Kristján var handtekinn 27. nóvember árið 2014.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að við handtöku ákærða og húsleit mátti sjá borðtölvu sem hafði verið tengd við sjónvarp með opinni Facebook vefsíðu þar sem notandanafn Kristjáns kom fram. Húsráðandi sagðist eiga tölvuna en Kristján hefði verið að nota hana. Tók lögreglan þá ákvörðun að skoða og mynda samskiptin sem þar komu fram sem voru á milli Kristjáns og brotaþola í málinu.

Var það mat Héraðsdóms Reykjaness að þessi gögn geti ekki talist tilgangslaus við sönnunarfærslu í málinu og því var kröfu ákærða hafnað.

Sjá dóm Hæstaréttar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×