Innlent

Hátt í 2.000 íbúðir í eigu ÍLS

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
1.894 íbúðir víða um land - helmingur í söluferli.
1.894 íbúðir víða um land - helmingur í söluferli. vísir/vilhelm
Íbúðalánasjóður á 1.894 íbúðir víða um land. Helmingur þeirra er í sölumeðferð, eða 916 og 889 í útleigu. Þetta kemur fram í skriflegu svari Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Langflestar íbúðirnar eru á Suðurnesjum, eða 781. Þar af eru 418 í sölumeðferð, 347 í útleigu, 11 í undirbúningi fyrir sölu og 5 í vinnslu vegna leigu. Á höfuðborgarsvæðinu eru alls 341 íbúð í sölumeðferð og útleigu og á Suðurlandi eru þær 219. Á Vesturlandi eru 111 íbúðir í sölumeðferð og 73 í útleigu og á Austurlandi eru 87 í sölumeðferð og 84 í leigu.



450 eignir til Kletts

Færðar voru 450 eignir til leigufélagsins Kletts, dótturfélags ÍLS, og eru nú í rekstri hjá félaginu. Alls eru 433 íbúðir í útleigu.

Í svari Eyglóar segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að færa frekari eignir til leigufélagsins. Aðspurð hvort mótuð hafi verið stefna varðandi eignarhald og fjármögnun leigufélagsins segir hún eignarhaldið alfarið í höndum Íbúðalánasjóðs. Ákveðið hefði verið að fjármögnun félagsins verði af hálfu Íbúðalánasjóðs og það fjármögnunarferli hafi verið tilkynnt til ESA, eftirlitsstofnun EFTA. Svör frá ESA hafi þó enn ekki borist.

Sjá einnig: Eygló Harðardóttir vill selja leigufélagið Klett ehf.



Skortur á framboði leiguíbúða

Ársskýrsla Leigjendaaðstoðarinnar var gefin út í dag. Þar segir að ljóst sé að talsvert skorti á að leigumarkaður á Íslandi sé í eðlilegu jafnvægi, að framboð fjölbreyttra leiguíbúða sé ekki nægjanlegt og að verulegur skortur sé á húsnæði til langtímaleigu. Draga þurfi úr vægi séreignarstefnunnar og auka valkosti í húsnæðismálum. „Því er mikil þörf á að efla starfsemi leigufélaga,“ segir í skýrslunni. Hins vegar sé jafnljóst að stjórnvöld hafi vilja til að koma á öruggum, heilbrigðum leigumarkaði.


Tengdar fréttir

Hækka fjármagnslið félagslegra íbúða um 13%

Búseti á Akureyri hefur ákveðið að leiga á félagslegum íbúðum hækki um 13 prósent á næsta ári. Er sú hækkun langt umfram verðbólgu. Fjárhagur Búseta kallaði á endurfjármögnun og hækkun leigutekna. Kemur sér illa fyrir tekjulága íbúa.

Tekur yfir eignir Leigufélags Íslands

Sjóðir Gamma láta til sín taka á leigumarkaði. Almenna leigufélagið býður nú langtímaleigu, sólarhringsþjónustu við leigjendur og íbúðaskipti. Félagið hefur tekið yfir eignir Leigufélags Íslands.

Unnið að aðgerðum í þágu leigjenda

Eygló Harðardóttir telur að leigjendur njóti góðs af skuldaniðurfærslunni. „Það er raunar töluverður hluti af skuldaleiðréttingunni sem fer í persónuafslátt vegna þess að fólk er ekki lengur með lán,“ sagði hún á þingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×