Samkvæmt niðurstöðum árlegrar könnunar Varasjóðs húsnæðismála um leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga, telja 40 sveitarfélög sig búa við skort á leiguíbúðum. Sex þeirra eru með áform um fjölgun þeirra. Í árslok 2013 voru leiguíbúðir sveitarfélaga rúmlega 4.900 og hafði þeim fjölgað um 1,2 prósent á milli ára.
Samkvæmt frétt á vef Velferðarráðuneytisins heyrir vandi sveitarfélaga vegna íbúða sem standa auðar um lengri tíma, sögunni til. Áður var þetta töluvert vandamál og einkum á Vestfjörðum. Þá fer rekstrarvandi sveitarfélaga vegna leiguíbúða minnkandi.
Árið 2011 áttu 31 sveitarfélag við vanda að stríða vegna rekstrarvanda vegna leiguíbúða, en samkvæmt könnuninni hefur þeim fækkað í 25.
Þó hefur þeim sveitarfélögum sem telja sig búa við skort á leiguhúsnæði fjölgað. Fyrst þegar spurt var út í þetta atriði árið 2009 voru þau 23 en nú eru þau 40.
Sex sveitarfélög hafa á prjónunum áform um að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð um 285. Þar munar mest um áform Félagsbústaða hf. í Reykjavík um að byggja 200 íbúðir og kaupa 20.
Fjöldi fólks sem sótt hefur um félagslega leiguíbúð er langmestur í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Sömu sögu er að segja af þeim sem bíða eftir slíkum íbúðum. Um 70% umsóknanna eru um leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu og um 80% þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð búa á höfuðborgarsvæðinu.
40 sveitarfélög búa við skort á leiguhúsnæði
Samúel Karl Ólason skrifar
