Innlent

Íbúar á Hverfisgötu óttaslegnir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Umrætt hús er bakhús, það þriðja frá Hverfisgötu.
Umrætt hús er bakhús, það þriðja frá Hverfisgötu. Vísir
Íbúar á Hverfisgötu eru óttaslegnir vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað í húsi við götuna undanfarna tvo mánuði. Karlmaður var stunginn í hjartað í nóvember og annar lést um liðna helgi. Atburðirnir áttu sér báðir stað í sama húsi við Hverfisgötu 88c þar sem nokkrar íbúðir eru í útleigu.

„Þetta er fólk sem er undir áhrifum eiturlyfja og er til ófriðs. Það eru ekki læti í þeim en þau er mjög aggressív þannig að maður reynir að vera sem minnst þarna í kring,“ segir nágranni sem fréttastofa ræddi við.

„Það er allt í rusli og óþrifnaði fyrir utan, þetta er farið að líta út eins og gettó,“ bætir hann við.

Starfsfólk haldi sig innandyra

Þá hefur starfsmönnum félagasamtakanna Veraldarvina við Hverfisgötu 88 verið ráðlagt að halda sig innandyra, því mennirnir eru sagðir hafa sýnt þeim ógnandi tilburði í tvígang hið minnsta. Því eru allar dyr læstar og fyllsta öryggis gætt.

„Þetta er farið að líta út eins og gettó,“segir nágranni.vísir/ernir
Reynt að koma fólkinu út

Ekki liggur fyrir hversu margir búa í umræddri íbúð hússins á Hverfisgötu. Samkvæmt heimildum fréttastofu rann leigusamningur út fyrir nokkrum mánuðum. Hvorki hefur gengið né rekið að koma fólkinu úr húsnæðinu og er útburður nú í ferli.

Nágrannar segja lögregluna tíðan gest á heimili fólksins og það staðfestir Kristján Ólafur Guðnason, varðstjóri á Hverfisgötu. „Óreglufólk virðist hafa dvalið þarna löngum stundum, og já, við höfum haft afskipti af þeim áður,“ segir Kristján Ólafur.

Sjá einnig: Tókst á ögurstundu að stöðva blæðinguna



Sebastian Andrzej Golab var stunginn í hjartað í 23.nóvember en þessi mynd var tekin það kvöld.vísir/þorgeir ólafsson
Banameinið heilablæðing

Maðurinn sem lést í íbúðinni síðastliðinn föstudag lést af völdum heilablæðingar. Kristján Ingi Kristjánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir það þó ekki liggja fyrir hvort það hafi gerst af mannavöldum.

„Við vitum ekki enn hvort hann hafi látist vegna slyss, af mannavöldum eða sjúkdóms,“ segir Kristján Ingi og bætir við að rannsókn málsins sé enn í gangi. Senn líði að lokum þess. Fimm hafa verið færð til skýrslutöku vegna málsins en krufning á manninum fór fram í gær.

Þá er einn grunaður um að hafa reynt að ráða karlmanni bana hinn 23. nóvember síðastliðinn. Sebastian Andrzej Golab var stunginn í hjartað en skjót handtök lækna urðu til þess að hægt var að bjarga honum. Einn er í gæsluvarðhaldi.

Sóðalegt er um að litast.vísir/ernir
.

Gengið er í gegnum port við hús Veraldarvina til að komast að tveimur bakhúsum. Hið aftara er þar sem mannslátið og hnífstungan áttu sér stað.vísir/ernir
.


Tengdar fréttir

Þakklátur fyrir að hafa lifað af hnífstungu gegnum hjartað

Sebastian var stunginn í gegnum hjartað á Hverfisgötu fyrir rúmri viku. Með ótrúlegum hætti tókst að bjarga lífi hans og bati hans þykir undraverður. Hann lítur á björgunina sem annað tækifæri og ætlar að lifa lífinu með allt öðrum hætti hér eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×