Innlent

Felldu nálgunarbann úr gildi yfir manni sem sagðist finna konuna hvar sem er

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Gunnar
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness að fella úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður sæti nálgunarbanni. Embætti lögreglustjóran á höfuðborgarsvæðinu hafði farið fram á að manninum yrði gert að sæta nálgunarbann í sex mánuði þannig að lagt yrði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili konu og sonar hennar á svæði sem afmarkas við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.

Þá vildi embættið einnig leggja bann við því að varnaraðili veiti konunni og syni hennar eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Konan leitaði til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. janúar síðastliðinn og lagði fram beiðni um nálgunarbann gagnvart varnaraðila á grundvelli laga um nálgunarbann og brotvísun af heimili.

Sakar manninn um árás og hótanir

Samkvæmt greinargerð lögreglu barst tveimur dögum áður tilkynning um að maðurinn hefði ruðst inn á heimili mæðginanna og ráðist á konuna. Samkvæmt frumkýrslu málsins var konan í töluverðu uppnámi á vettvangi og sagði að maðurinn, sem væri fyrrverandi vinur hennar, hefði ráðist á sig. Hún sagðist hafa verið að bíða eftir vini sínum þegar barið var að dyrum. Þegar hún opnaði hurðina ruddist maðurinn inn. Konan tjáði honum að hún vildi hann burt og rifust þau í kjölfarið sem varð til þess að maðurinn réðst á konuna og sló hana nokkrum höggum í andlit og líkama. Maðurinn hefði síðan yfirgefið íbúðina en í frumskýrslu kom fram að konan hefði verið með sjáanlega áverka vinstra megin á nefi, auk þess em hún hefði kvartað undan verkjum í vinstri síðu.

Vonaði að nágranni heyrði öskrin

Degi síðar fór konan á lögreglustöð og kærði ofangreinda árás og lýsti árásinni svo að maðurinn hefði ruðst inn, tekið konuna hálstaki og sett skammbyssu upp að höfði hennar. Konan sagði manninn hafa lýst yfir vilja til þess að drepa hana en að hann vildi ekki fara í fangelsi. Konan sagði manninn hafa því næst sett byssuna í vasann og byrjað að slá hana mörg högg í síðu og upphandlegg. Konan sagðist hafa öskrað í þeirri von að að nágranni hennar á efri hæð hússins heyrði í henni. Konan sagði manninn hafa þá tekið fyrir munn hennar og siðan haldið áfram að slá hana í síðuna og einnig á vinstra gagnauga. Að því loknu á maðurinn að hafa yfirgefið íbúðina en áður hafði hann að sögn konunna hótað því að lemja og jafnvel drepa son hennar en myndi þó líklega bíða með það þar til hann yrði átján ára.

„Hefur þú eitthvað segja litla rotta?“

Degi síðar greindi konan lögreglu frá því að maðurinn hefði ekið fram hjá heimili hennar en við skýrslutöku sagðist konan vera mjög hrædd á heimili sínu og ekki þora út úr húsi af ótta við varnaraðila. 

Þá sýndi konan jafnframt lögreglunni myndskeið sem hún tók af manninum þegar hann ók framhjá heimili hennar stuttu áður. Á einu myndskeiðinu sást maðurinn skrúfa niður rúðuna á bíl sínum og segja: „Hefur þú eitthvað segja litla rotta?“.

Deilur vegna fasteignaviðskipta

Konan sagði manninn hafa byrjað að ofsækja hana fyrir tveimur árum en deilur þeirra megi rekja til fasteignaviðskipta. Í greinargerð lögreglu kom fram að maðurinn hefði hótað mæðginunum báðum líkamsmeiðingum og margsinnis valdið spjöllum á eignum konunnar.

Samkvæmt málaskrá lögreglunnar hefur konan meðal annars kært manninn fyrir að sprengja dekk á bifreið hennar 15. apríl 2013 og setja vatn á bensíntankinn. Þá sagði konan manninn einnig hafa farið í skóla sonar hennar og ausið yfir hann fúkyrðum um konuna. Þá sagði konan manninn ítrekað hringja í sig og koma heim til sín.

Þá var maðurinn kærður fyrir eignaspjöll 16. júlí árið 2013 á bifreið vinar konunnar sem hún var með í láni.

9. júní árið 2013 tilkynnti konan um innbrot og eignaspjöll á heimili hennar og kvaðst hún telja að maðurinn hefði verið þar að verki.

24. júní árið 2013 hringdi konan í lögreglun og tilkynnir að maðurinn sé að sparka og lemja í útidyrahurð og hringja dyrabjöllu og síma.

Degi síðar lagði konan fram beiðni um nálgunarbann á hendur manninum sem var hafnað.

1. september árið 2014 kærði konan manninn fyrir að falsa umboð í nafni hennar til að geta fengið upplýsingar um hana frá stjórnvöldum.

24. september síðastliðinn kærði konan manninn fyrir eignaspjöll á bifreið sinni og hótanir. Lýsti hún jafnframt áreiti af hans hálfu.

Sagðist finna konuna hvar sem er

Lögreglustjórinn vísaði enn fremur till þess að meðal gagna málsins sé upptaka af samtali mannsins við tvo aðra menn sem átti sér stað 11. desember árið 2014. Í því samtali segir lögrelgustjóri koma fram hótanir í garð beggja brotaþola og staðfestu tvímenningarnir að hafa átt umrætt samtal við manninn. Sjálfur staðfesti maðurinn einnig að hafa rætt við mennina. Á upptökunni segir maðurinn að ef konan verði á Íslandi muni hún ekki fá frið. Það skipti engu máli hvar í heiminum hún verði, hann muni finna hana. Þá sagðist hann aðspurður ætla að ganga frá henni. Hann vildi hins vegar ekki segja viðmælendum sínum hvernig hann ætli að gera það. Hjá manninum kom einnig fram að hann sé búinn að reyna dómstólaleiðina en fái ekki íbúðina sína til baka. Sagði maðurinn þetta vera prinsipp mál fyrir sig og að konan skuli gjalda fyrir það, ef ekki hún þá sonur hennar þegar hann verður karlmaður.

Neitar sök

Í skýrslutöku þann 9. janúar síðastliðinn neitaði maðurinn sök eins og í fyrri málum og sakaði hann konuna um að reyna að sverta mannorð sitt vegna dómsmáls milli þeirra sem rekið sé fyrir dómstólum. Varðandi atvikið 6. janúar sagðist maðurinn hafa farið heim til konunnar til að spyrja hana hvort hún ætlaði ekki að borga honum peninga sem hún skuldi honum vegna svika í húsnæðisviðskiptum. Maðurinn neitaði að hafa ruðst inn og ráðist á konuna í umrætt sinn. Þá vísaði maðurinn til þess að hann þyrfti nær daglega að aka framhjá heimili konunnar vinnu sinnar vegna.

Hótaði að ganga frá henni fjárhagslega

Um upptökuna frá 11. desember staðfesti maðurinn að hafa rætt við tvímenningana um konuna. Hann neitaði hins vegar að hafa hótað konunni líkamsmeiðingum en gekkst við því að hafa hótað að ganga frá henni fjárhagslega, sem og að sonur hennar tæki við skuldinni þegar hann yrði átján ára, ef innheimta skuldarinnar tækist ekki hjá móður hans.

Lögreglustjórinn segir ljóst að konunni stafi ógn af varnaraðila og að rökstuddur grunur liggi fyrir um að maðurinn hafi brotið gegn brotaþolum og að hætta sé á að hann haldi áfram að raska friði þeirra njóti hann fulls athafnafrelsis.

Efast um réttmæti ásakana

Héraðsdómur Reykjaness segir heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Héraðsdómur taldi hins vegar ekki hægt að slá föstu um að maðurinn hafi brotið gegn drengnum og ekki talið að hann hafi raskað friðhelgi drengsins í skilningi laga.

Þá taldi Héraðsdómur Reykjaness ekki hægt að slá á föstu um réttmæti þeirra ásakana konunnar í garð mannsins. Þá sagðist Héraðsdómur Reykjaness ekki sjá annað en að umrædd upptaka af samtali mannsins við mennina tvo hafi verið gerð án hans vitneskju og að maðurinn hefði ekki átt frumkvæði að fundinum. Þá sagði Héraðsdómur Reykjaness að það virðist vera sem svo að ítrekað hefði freistað í samtalinu að leggja manninum orð í munn.

Margt á huldu að mati héraðsdómara

Þá var það mat Héraðsdóms Reykjaness að málsatvik 6. janúar séu um margt á huldu og rannsókn málsins ekki lokið. Taldi dómurinn rétt að lita til þess að sú lýsing sem höfð var eftir konunni í frumskýrslu sé að minnsta kosti á einu mjög veigamiklu atriði önnur en í framburðarskýrslu hennar fyrir lögreglu degi síðar, og er þar vitnað til frásagnar konunnar af vopnburði mannsins. Ákvað Héraðsdómur Reykjaness því að fella nálgunarbannið úr gildi og staðfesti Hæstiréttur Íslands þann úrskurð í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×