Innlent

Sex mánaða nálgunarbann: Ætlaði að gera mannaskít úr hnetum og súkkulaði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn má ekki setja sig í samband við hana með öðrum leiðum eins og með tölvupósti, skilaboðum á Facebook eða síma.
Maðurinn má ekki setja sig í samband við hana með öðrum leiðum eins og með tölvupósti, skilaboðum á Facebook eða síma. Vísir/Getty
Hæstiréttur hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni í hálft ár. Maðurinn má ekki koma á eða í námunda við heimili eða vinnu konu á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis fyrrnefnda staði. Þá má maðurinn ekki setja sig í samband við hana með öðrum leiðum eins og með tölvupósti, skilaboðum á Facebook eða síma.

Maðurinn og konan kynntust árið 2011 þegar þau sátu saman námskeið við Háskóla Íslands. Hefur áreitið staðið yfir með hléum síðan þá. Í greinargerð lögreglu kemur fram að áreitið í skólanum hafi gengið svo langt hún hafi óskað eftir því að skólayfirvöld að þau sæju til þess að hún þyrfti ekki að sitja tíma með manninum. Áreitið fólst í ítrekuðum tilraunum til að ná tali af henni í skólanum þrátt fyrir skýra kröfu um að hún óskaði ekki eftir samskiptum við hann.

Þá hafi hringt í móður konunnar auk þess að senda stúlkunni gjöf sem innihélt bolta og pumpu. Eftir innpökkun minnti gjöfin á kynfæri karla. Þá króaði hann hana af í skólanum, henni barst hótun í nafnlausum tölvupósti auk þess sem konuna grunaði að maðurinn hefði ítrekað verið á ferð í bíl sínum í námunda við heimili konunnar.

Skorið á dekk kærasta

Síðla árs 2013 barst konunni Facebook-skilaboð þar sem maðurinn spurði út í fjarveru hennar í sjúkraprófi og þá hafi hann reynt að gefa sig á tal við hana haustið 2013. Síðastliðið sumar hafi maðurinn svo beðið hana afsökunar á Þjóðarbókhlöðunni.

Það var svo í október 2014 sem konan segist hafa orðið fyrir miklu ónæði. Ítrekað hafi verið hringt á bjöllu um miðnætti í íbúð konunnar og sömuleiðis við íbúð kærasta hennar. Þá hafi maðurinn reynt að klifra upp á svalir íbúðarinnar en nágranni stoppað hann.

Vinur konunnar hringdi svo í hana í október og sagðist vita til þess að maðurinn væri með hana á heilanum, væri mjög veikur á geði og til alls vís. Maðurinn hafi meðal annars rætt um að siga á hana handrukkara og vinurinn spurt hvort búið væri að skemma bíl hennar. Rætt hefði verið um það.

Konan kærði svo manninn til lögreglu 1. desember síðastliðinn vegna eignarspjalla á bílnum þann 19. október. Þá segir hún að ítrekað hafi verið skorið á dekk á bíl kærasta hennar. Maðurinn neitar að hafa komið nálægt því.

Maðurinn og konan kynntust í námskeiði við Háskóla Íslands árið 2011. Áreitið hefur staðið yfir með hléum síðan.
Vissi um fyrri ástmenn

Í greinargerðinni kemur sömuleiðis fram að maðurinn hafi sent konunni endurtekið skilaboð á Facebook í lok október og nóvember þar sem hann tiltók ýmsar persónulegar upplýsingar um konuna. Meðal annars ástarsambönd hennar við núverandi og fyrrverandi kærasta. Konan segist hafa reynt að gera manninum skiljanlegt í tölvupósti að hún vildi ekkert ræða við hann og ekki svarað skilaboðunum á Facebook. Hann hafi ekki látið segjast.

Konan tilkynnti svo 2. desember til lögreglu að ökumaður bifreiðar hefði veit sér eftirför. Maðurinn neitaði að hafa elt hana en kannaðist við að hafa ekið bílnum umræddan dag.

Við skýrslutöku hjá lögreglu þann 4. desember síðastliðinn viðurkenndi maðurinn að hafa sent konunni fjölda skilaboða á Facebook þrátt fyrir að hafa engin svör fengið. Hann hafi viljað stuða hana með því að fjalla um ástarsambönd hennar og persónulega hagi. Hann viðurkenndi að hafa gefið konunni gjöf fyrir nokkrum árum, hringt í móður hennar og að hafa ekki látið konuna í friði þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Hann lofaði þó að láta hana í friði í kjölfar skýrslutökunnar.

Mannaskítur úr hnetum og súkkulaði

Þremur dögum síðar tilkynnti konan lögreglu að henni hefðu borist Facebook skilaboð frá manninum af reikningi annars manns á samfélagsmiðlinum. Maðurinn hefði þó kynnt sig með réttu nafni.

Þar hótaði maðurinn konunni, vísaði til samskipta við lögreglu, og sagðist vera tilbúinn að hafa samband við „verktakann“ vegna hennar. Við skýrslutöku 15. desember sagðist maðurinn hafa sent skilaboðin með leyfi kunningja síns. Ekki hafi þó verið um hótanir að ræða. Hann hafi haft plön um að hrella brotaþola með annarri gjafasendingu. Í þetta skiptið hafi hann ætlað að senda henni eitthvað sem liti út eins og mannaskít. Til þess ætlaði hann að nota hnetur og súkkulaði. Lögregla tók tölvur mannsins til rannsóknar og sagði maðurinn að mögulega væru ein til tvær myndir af konunni að finna á tölvunni.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sé litið til framkomu mannsins heildstætt sé ekki hægt að fallast á það að hann hafi einungis verið brotaþola til ama. Heldur hafi hann einnig með ólögmætum hætti raskað friðhelgi hennar og hefur framkoma hans verið til þess fallin að vekja ótta hjá konunni. Hæstiréttur staðfesti úrskurð í héraði.

Dóm Hæstaréttar í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×