Innlent

Yngsti sonurinn spurði: „Mamma, hvað ertu búin að gera?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Vertu fúll með eitthvað sem þú ert að gera en láttu aðra í friði. Vertu ekki að éta aðra lifandi,“ segir Jóna Ósk.
"Vertu fúll með eitthvað sem þú ert að gera en láttu aðra í friði. Vertu ekki að éta aðra lifandi,“ segir Jóna Ósk. Vísir/GVA

„Það er búið að flá mig lifandi á Facebook,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir. Pistill sem hún skrifaði í Smartlandi um óvænta afmælisgjöf þegar hún varð fimmtug á dögunum hefur vakið mikla athygli. Jóna fékk nefnilega inn um lúguna pakka frá Bláa Naglanum en pakkinn berst til karlmanna sem verða fimmtugir á árinu. 

Jóna mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og deildi með hlustendum þeim viðbrögðum sem hún hefur fengið í kjölfar skrifa sinna.

Í pistlinum, sem ber titilinn „Ömurlegasta afmælisgjöf í heimi“, segir hún gjöfina þá ömurlegustu sem hún hafi fengið á ævinni.

„Vonbrigðin þegar ég opnaði kassann voru mikil. Þar blasti hún við mér þessi ömurlega gjöf. Sú allra allra ömurlegasta – og það eru engar ýkjur! Í kassanum var nefnilega heimapróf til að prófa fyrir ósýnilegu blóði í saur. Já og risastór nagli. Ég fékk sem sagt kúkapróf í stórafmælisgjöf og lái mér hver sem vill að vera ekki í skýjunum með það,“ segir meðal annars í pistli Jónu Óskar.

Viðkvæm kona á breytingaskeiði

Jóna sagði í Bítinu að henni hafi vissulega fundist óþægilegt að fá gjöfina á þessum tímamótum.

„Maður er að sætta sig við að vera komin á nýjan tug, er viðkvæm kona á breytingaskeiði. Maður er náttúrulega ofurviðkvæmur á stundum,“ segir Jóna. Hún hafi þó séð eitthvað kómískt við þetta á sama tíma.

Sjá einnig: Naglarnir á Litla-hrauni pökkuðu inn nöglum

„Ég ákvað að henda í þennan pistil á kómískum nótum,“ segir Jóna Ósk. Í pistlinum segir að það taki alltaf aðeins á að eiga stórafmæli og fara yfir á næsta tug.

„Ég hef t.d. verið minnt á það að ég sé komin í seinni hálfleik. En þessi afmælisgjöf hreinlega drap niður alla gleði og mér leið eins og ég hefði fengið naglann í líkkistuna mína,“ segir í pistlinum.

Ekki stóð á viðbrögðum.

„Það er búið að kalla mig klikkaða, helvítis frekju, barnalega, vera að derra mig, þekki ekki til veikinda, ég ætti að skammast mín og hætta þessu andskotans væli. Þetta er bara brot,“ sagði Jóna Ósk um viðbrögðin sem hún hefur fengið.

Hún segir að fólk sem þekki hana viti hve kaldhæðin hún geti verið. Einn og einn hafi sagt henni að efni pistilsins væri „ógeðslega fyndið.“ Þrátt fyrir allt sé hún að tjá tilfinningar sínar og þær megi hún hafa. Hún sé eins og aðrar konur á breytingarskeiði og geti verið viðkvæm.

„Er það ekki eins og að segja við geðsjúkan eða þunglyndan: Hættu þessu helvítis væli og hristu þetta af þér?“

Jóna Ósk segist munu hugsa sig tvisvar um áður en hún skrifar annan pistil á svipuðum nótum.

„Klárlega. Ég á náttúrlega fjölskyldu og yngsti sonur minn í dag sá þetta á netinu í gær, horfði á mig og sagði: Mamma, hvað ertu búinn að gera? Þá var mér brugðið þegar þetta er farið að hafa áhrif á aðra fjölskyldumeðlimi.“

Passar sig á Facebook

Hún minnir á að málfrelsi sé í landinu og allir hafi leyfi til að tjá sig. Hins vegar megi velta fyrir sér hversu langt megi ganga.

„aður veit að á kaffistofunum hefur fólk verið rakkað niður í tugi ára. Nú er þetta orðið opinbert á netinu þar sem allir sjá það. Mér finnst þetta ömurleg þróun og sorglegt. Er þetta það sem við viljum? Að enginn þori að tjá sig?“

Pistlahöfundurinn segist passa sig til dæmis á Facebook-síðu sinni að viðra ekki allra skoðanir sínar til að styggja engan.

„Maður má passa sig til að fá ekki yfir sig drullu,“ segir Jóna Ósk og sendir skilaboð til þeirra sem fara mikinn og eru orðljótir á netinu.

„Vertu fúll með eitthvað sem þú ert að gera en láttu aðra í friði. Vertu ekki að éta aðra lifandi.“


Tengdar fréttir

Naglarnir á Litla-Hrauni pökkuðu inn nöglum

Fjáröflun fyrir nýjum línuhraðli til handa Landspítalanum hófst um síðustu helgi. Línuhraðlar eru sá tækjabúnaður sem notaður er við geislameðferð krabbameinssjúklinga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×