Innlent

Fimmtugir á árinu fá skimun í afmælisgjöf

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þeir sem verða fimmtugir á árinu fá skimunarpróf frá Bláa naglanum að gjöf.
Þeir sem verða fimmtugir á árinu fá skimunarpróf frá Bláa naglanum að gjöf. vísir/vilhelm
Á árinu 2015 mun Blái naglinn gefa öllum þeim sem verða fimmtugir á árinu afmælisgjöf. Gjöfin er skimunarpróf fyrir blóði í hægðum.

„Það eru 4.388 einstaklingar sem verða fimmtugir á árinu. Af þeim fá um 4.000 próf,“ segir Jóhannes Valgeir Reynisson, stofnandi Bláa naglans. Þeir sem merktir eru með bannmerki í símaskránni fá ekki slíka gjöf.

Prófin verða send út mánaðarlega til allra þeirra sem eiga afmæli í þeim mánuði. Fyrsti skammturinn, alls 287 próf, fór út í gær og 301 verður sent 1. febrúar.

Jóhannes Valgeir Reynisson
Þann 1. febrúar verður heimasíðan krabbameinsleit.is sett í loftið þar sem fólk getur skráð hvort blóð finnist í hægðum þess eður ei. 

„Niðurstöðurnar munu koma til okkar dulkóðaðar og órekjanlegar. Það er mikilvægt fyrir okkur að sjá hjá hve mörgum finnst blóð en þetta getur verið enn mikilvægara fyrir þá sem finna blóð í hægðunum og geta leitað sér aðstoðar í kjölfarið,“ segir Jóhannes. 

Alls greinast um 130 einstaklingar með ristilskrabbamein árlega og um fimmtíu látast. Jóhannes segir að með virkri fræðslu og forvarnarstarfi sé mögulegt að koma í veg fyrir um áttatíu prósent dauðsfallanna sé meinið greint fyrr en nú.

„Kostnaðurinn af þessu skiptir ekki máli sé litið til hagsmunanna sem eru í húfi. Ávinningurinn er margfalt meiri en kostnaðurinn,“ segir Jóhannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×