Innlent

Naglarnir á Litla-Hrauni pökkuðu inn nöglum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Pin of hope kallast sá blái nú meðan herjað er á ferðamennina.
Pin of hope kallast sá blái nú meðan herjað er á ferðamennina. Fréttablaðið/Pjetur
Fjáröflun fyrir nýjum línuhraðli til handa Landspítalanum hófst um síðustu helgi. Línuhraðlar eru sá tækjabúnaður sem notaður er við geislameðferð krabbameinssjúklinga.

Tveir slíkir eru á Landspítalanum en þeir eru komnir til ára sinna og því brýn þörf á einum nýjum að sögn Jóhannesar V. Reynissonar. Hann fer fyrir herferðinni, sem hann segir jafnframt átak til vitundarvakningar um blöðruhálskrabbamein. Fjáröflunin er í formi sölu barmmerkja með bláa naglanum.

„Nú ætla ég að herja á ferðamennina,“ segir Jóhannes. „Fyrir hvert barmmerki með bláa naglanum sem keypt er verður gróðursett eitt tré í Hekluskógum svo þetta er líka kjörið tækifæri fyrir þá að skilja eitthvað jákvætt eftir sig á Íslandi,“ segir hann.

Jóhannes segist hafa lent í vandræðum þegar kom að því að koma bláa naglanum í umbúðir. „Ég var búinn að gera ráð fyrir því að fá vernduðum vinnustað það verk en þegar til kastanna kom voru allir þar komnir í sumarfrí. Þá komu hins vegar naglarnir á Litla-Hrauni til skjalanna og tóku þetta að sér.“

Jóhannes biðlar nú til fólks sem getur lagt honum lið svo að barmmerkið með bláa naglanum verði sem víðast fyrir augum ferðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×