Innlent

Málverkastuldur í Reykjavík: „Verkið er mér ómetanlegt“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigrún og listaverkið.
Sigrún og listaverkið.
Málverki var stolið frá myndlistakonunni Sigrúnu Sigurðardóttur í nóvember síðastliðnum. Verkið hafði verið til sýnis á listasýningu sem Sigrún hélt í húsnæði Domus Medica við Egilsgötu í Reykjavík en þangað virðist hafa ratað inn þjófur sem í kjölfarið tók verkið ófrjálsri hendi.

Verkið er Sigrúnu ómetanlegt en hún hafði eytt rúmu ári í að mála það. Um er að ræða stærðarinnar málverk af Bessastöðum. „Mér finnst nánast eins og ég hafi misst barnið mitt. Ég lagði allt mitt í þetta málverk og þykir afskaplega vænt um það. Ég hef varla getað notið jólanna ég sakna þess svo og þykir þetta svo sárt,“ segir Sigrún.

Málverkinu sem stolið var.
Hún tilkynnti málið til lögreglu og fékk að líta á myndir úr öryggismyndavélum. „Myndavélarnar sýna að um leið og hann kom inn tók hann upp myndavél og tók mynd af verðlistanum sem hékk uppi á vegg. Þannig að þetta var alveg skipulagt hjá honum. Hann vafraði síðan um í smá stund og beið eftir að enginn væri á ferð og tók málverkið,“ segir Sigrún en myndin var til sölu á 380 þúsund krónur, hennar allra dýrasta listaverk.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigrún verður fyrir slíku óláni en á sama stað fyrir þremur árum var öðru málverki frá henni stolið. Blessunarlega fannst það verk aftur.

„Það er hræðilegt ef listamenn geta ekki haldið sýningar án þess að hlutunum verði rænt,“ segir hún. „Verkið er mér ómetanlegt og ég óska mér þess svo heitt að fá það aftur í hendurnar.“

Sigrún segir að maðurinn sem sást hnupla verkinu sé á sextugsaldri, meðalmaður á hæð með grásprengt skegg, heldur bústinn. Á myndunum var hann með hvíta derhúfu.

Hún biðlar til allra þeirra sem telja sig hafa vitneskju um málið að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.

Hér er maðurinn sem um ræðir.

Tengdar fréttir

Kjarvalsmálverki stolið á Kjarvalsstöðum

Málverki eftir Kjarval var stolið um hábjartan dag á Kjarvalsstöðum í gær þegar karlmaður gekk inn á safnið laust eftir klukkan tvö og tók eitt af verkum listamannsins sem var í sýningarsal og hafði á brott með sér ásamt öðrum manni.

Leitað að bíræfnum málverkaþjófum

Málverk eftir Vincent Van Gogh sem metið er á um 6 milljarða hefur ekki enn komist í leitirnar. Talið er að bíræfnir þjófar hafi stolið verkinu.

Kjarvalsmálsverkið 5 til 7 milljóna króna virði

Tryggvi Páll Friðriksson, uppboðshaldari hjá Gallerí Fold, áætlar að verk eftir Jóhannes Kjarval sem stolið var á Kjarvalsstöðum í gær sé 5-7 milljóna króna virði. Hann telur að virði þess hafi verið ennþá meira þegar góðærið var hvað mest.

Öryggismál í skoðun eftir skemmdarverk á Monet

Öryggismál á frönskum söfnum er nú til endurskoðunnar þar í landi eftir að þekkt verk á þeim hafa ítrekað verið skemmd eða þeim stolið. Síðasta dæmið um skemmdarverk á þekktu klassísku málverki átti sér stað á Musee d' Orsay safninu í gærmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×