Innlent

Segir ekki hægt að ýta múslima-tengingu til hliðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Morgunblaðinu er ritstýrt af Davíð Oddssyni og Haraldi Johannessen.
Morgunblaðinu er ritstýrt af Davíð Oddssyni og Haraldi Johannessen. Vísir/Gunnar
„Þessari tengingu, jafn sársaukafull og hún hlýtur að vera fyrir hinn almenna múslima, er ekki hægt að ýta til hliðar í umræðum um þennan alvarlega vanda,“ skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag í leiðara sem ber heitið: Nauðsynlegt er að viðurkenna vandann.

Leiðarahöfundurinn segist nefna þetta vegna þess að á því hafi borið að reynt sé að hafna tengslunum við trúarbrögðin og ætlast til þess að aðeins sé litið á hermarverkamennina sem einstaklinga sem fremji hryðjuverk.

„Um leið er nauðsynlegt að viðurkenna þann vanda sem við er að etja. Á götum nokkurra Evrópuríkja hafa hermenn staðið vörð síðustu daga vegna hryðjuverkaógnar og mikil leit stendur yfir að fleiri meintum hryðjuverkamönnum. Allir þeir sem um ræðir eiga það sameiginlegt að vera múslimar og vilja til að fremja hryðjuverk í nafni trúarinnar,“ skrifar leiðarahöfundur og bætir við:

„Vissulega er freistandi að gera þetta til að hlífa öðrum múslimum við sársaukanum af því að trú þeirra sé tengd slíkum voðaverkum, en því miður er það hvorki raunsætt né rétt. Vandann verður að viðurkenna og talsmenn og forystumenn múslima um allan heim verða að leggja sitt af mörkum til að forða því að trúbræður þeirra séu leiddir út á glapstigu af mönnum sem skirrast ekki við að misnota trúarbrögðin.“

Hann segir þá sem eru annarrar trúar geta lagt sitt af mörkum. „En orð þeirra munu aldrei vega jafn þungt og leiðtoga múslima hvarvetna í heiminum til að útskýra að voðaverk séu í andstöðu við trúna. Máttur orðanna verður þeim mun minni ef menn gefa sér það fyrirfram að tengslin við trúna séu ekki fyrir hendi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×