Kvikmyndaleikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson hyggst gera mynd byggða á bók Gunnars Gunnarssonar, Svartfugli, sem kom út árið 1928. Frá þessu er greint á vef Screen International en Friðrik Þór er nú staddur á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada þar sem hann frumsýnir heimildarmyndina Sjóndeildarhringur.
Eins og margir kannast við er söguþráður bókar Gunnars byggður á sannsögulegum atburðum sem áttu sér stað á bænum Sjöundá á Rauðasandi árið 1802. Tvö hjón bjuggu á jörðinni, annars vegar þau Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir og hins vegar Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir.
Skömmu eftir að Jón og Steinunn fluttu á jörðina byrjuðu hún og Bjarni að draga sig saman. Jón hvarf svo sporlaust í apríl 1802 og tveimur mánuðum síðar lést Guðrún snögglega. Grunsemdir vöknuðu þá um að þau hefðu verið myrt og játuðu Steinunn og Bjarni eftir miklar yfirheyrslur að hafa myrt maka sína. Þau voru dæmd til dauða fyrir morðin.
Mynd Friðriks Þórs hefur verið lengi í bígerð en árið 2003 hlaut Íslenska kvikmyndasamsteypan handritastyrk vegna hennar frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Ingvar E. Sigurðsson mun fara með hlutverk Bjarna í myndinni en enn á eftir að finna leikkonu til að fara með hlutverk Steinunnar.
„Ég elska glæpasögur og þessi saga sýnir hversu mikið fólk er tilbúið að fórna fyrir ástina,“ segir Friðrik Þór í samtali við Screen International.

