Enski boltinn

Wenger: United á eftir öllum leikmönnum sem mér er boðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal hélt blaðamannafund í morgun í tilefni af stórleiknum við Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Wenger var spurður út í sumarið en hann býst við að United-menn verði þá mjög virkir á félagsskiptamarkaðnum .

„Mér er sagt að Manchester United sé á eftir öllum leikmönnum sem mér er boðið þessa dagana," sagði Arsene Wenger aðspurður um sumarið á félagsskiptamarkaðnum.

Manchester United er langt komið með að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á nýjan leik en liðið er tveimur stigum á eftir Arsenal og sextán stigum á eftir Englandsmeisturum Chelsea þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Arsenal á auk þess leik inni á United en tryggir sér sæti meðal þriggja efstu liðanna með sigri á Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn kemur.

„Við búumst við því að þeir komi inn með sterka leikmenn en þeir hafa líka mjög sterkan hóp í dag. Leikmannahópur þeirra í dag er í toppklassa," sagði Arsene Wenger.

Manchester United vinnur ekki titil á þessu ári frekar en í fyrra en Arsenal getur unnið enska bikarinn annað árið í röð vinni liðið Aston Villa í úrslitaleikinn á Wembley.

Arsenal er líka búið að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni átjánda árið í röð en fyrir bikarsigurinn í fyrra var Wenger búinn að bíða í átta heil tímabil eftir titli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×