Hljómsveitin var stofnuð árið 2012 og segir Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, einn meðlima, þær koma úr ólíkum áttum en allar hafa átt sameiginlegan draum um að stofna hljómsveit og vinna þær nú að því að gefa út nýtt efni.
Lögin sem gefin verða út í ár eru fimm talsins og verða þau öll gefin út sem smáskífur ásamt myndbandsverkum eftir ólíka leikstjóra sem allir eiga það sameiginlegt að vera kvenkyns.

„Þegar maður fer að leita að leikstjóra á Íslandi detta manni fyrst í hug karlmenn. Konurnar eru kannski ekki með eins tækifæri þar og við fórum að skoða hvaða konur væru að leikstýra tónlistarmyndböndum og það var bara heill hellingur þegar maður fór að skoða og það var rosalega gaman.“
Meðlimir hljómsveitarinnar eru fimm talsins, þær Harpa Fönn Sigurjónsdóttir hljómborðsleikari, Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir flautuleikari, Dísa Hreiðarsdóttir trommuleikari, Guðrún Birna La Sage de Fontenay gítarleikari og Björk Viggósdóttir, synþa-leikari.
Myndbandinu við lagið Fram er leikstýrt af Björk Viggósdóttur sem í kringum samvinnuna varð meðlimur í hljómsveitinni.