Innlent

Flóðlýsing Laugardalsvallar ekki tekin fyrir á fundi borgarráðs í dag

Sveinn Arnarsson skrifar
Framkvæmdir við endurnýjun flóðlýsingar eru hafnar.
Framkvæmdir við endurnýjun flóðlýsingar eru hafnar. fréttablaðið/pjetur
Framkvæmdir eru hafnar við endurnýjun flóðlýsingar á Laugardalsvelli þrátt fyrir að borgarráð sé ekki búið að samþykkja fjárveitingu til verksins. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar samþykkti samning um fjárveitingu til verksins fyrir sitt leyti og vísaði samningnum til borgarráðs þann 9. maí síðastliðinn. Í þeim samningsdrögum á Reykjavíkurborg að greiða um 50 milljónir króna til KSÍ á þremur árum og eignast svo fljóðljósin. Líklega mun borgarráð ekki taka samninginn til efnislegrar meðferðar á fundi sínum í dag.

Dagur B. Eggertsson
Framkvæmdin, sem KSÍ hóf án þess að samningur við borgina lægi fyrir, var ekki boðinn út og samningur gerður við einn aðila um kaupin.

„Það er rétt að það stóð til að hafa málefni Laugardalsvallar á dagskrá borgarráðs en ég er ekki viss um að sú verði raunin, við þurfum að fá færi á því að fara betur yfir málið,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. „Ég er búinn að vera í öðru síðustu daga svo það er langlíklegast að ég taki þetta út af dagskrá og fari yfir þetta með sérfræðingum innan borgarinnar.“

Eva Baldursdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, telur það skjóta skökku við að framkvæmdir séu hafnar. „Jú, mér finnst framvindan skrítin,“ segir Eva. „Meirihluti fjármagnsins kemur frá borginni en ef svo ólíklega vildi til að þetta yrði ekki samþykkt í borgarráði þá hljóta þeir að treysta sér til að fjármagna framkvæmdina með öðrum leiðum.“ 

„Það orkar tvímælis að framkvæmdir séu hafnar ef verkefnið er ekki að fullu fjármagnað,“ segir Eva. 

Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segist ekki þekkja þetta mál nógu vel og ekki hafa gefið sér tíma til að kynna sér það í þaula. „Það er hins vegar alveg á hreinu, og það er í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, að það eigi að vera vinnuregla innan borgarinnar að það eigi að viðhafa útboð sem víðast til að fara sem best með peninga skattborgara.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×