Innlent

Tekið á móti fimm hinsegin flóttamönnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Árið 2010 lak úganska blaðið Rolling Stone myndum af 100 samkynhneigðum einstaklingum í Úganda ásamt heimilisföngum þeirra. "Hengið þá," sagði einnig á forsíðu blaðsins.
Árið 2010 lak úganska blaðið Rolling Stone myndum af 100 samkynhneigðum einstaklingum í Úganda ásamt heimilisföngum þeirra. "Hengið þá," sagði einnig á forsíðu blaðsins.
Félags- og húsnæðismálaráðherra og utanríkisráðherra hafa samþykkt tillögu flóttamannanefndar um móttöku fimm hinsegin flóttamanna frá Simbabve, Úganda og Kamerún og sex manna fjölskyldu frá Afganistan en þetta kemur fram í frétt á vef Velferðaráðuneytisins.

Móttökusveitarfélög flóttafólksins eru Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbær.

Flóttamannanefnd skoðaði umsóknir flóttafólks sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lét nefndinni í té. Reykjavíkurborg verður móttökusveitarfélag hinsegin flóttafólksins og hefur því átt aðkomu að málinu með flóttamannanefnd. Ein kona er í hópi flóttafólksins, hinir fjórir eru karlmenn. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa flúið heimaland sitt vegna ofsókna sem þau hafa sætt vegna kynhneigðar sinnar.

Hafnarfjarðarbær verður móttökusveitarfélag afgönsku fjölskyldunnar; ekkju með fimm börn. Tillaga flóttamannanefndar um að bjóða konunni með börnum sínum til Íslands er í samræmi við áherslur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um móttöku fólks sem fellur undir viðmið stofnunarinnar um konur í hættu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna verður nú tilkynnt að íslensk stjórnvöld séu tilbúin til að taka á móti þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×