Innlent

Mikil viðbrögð vegna húsgagna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson segir marga hafa skoðanir á því hvert húsgögnin eigi að fara.
Dagur B. Eggertsson segir marga hafa skoðanir á því hvert húsgögnin eigi að fara. vísir/ernir
„Nei, það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir í því,“ segir Dagur B. Eggertsson, spurður um hvaða húsgögn verði keypt í staðinn fyrir fölsuðu Le Corbusier-húsgögnin í Ráðhúsinu.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá mun Reykjavíkurborg þurfa að farga fjölda sófa og hægindastóla sem hafa reynst vera fölsuð vara.

Dagur segir að málið sé ekki komið lengra en það að borgin sé í samskiptum við Cassina, framleiðanda hinna ósviknu Le Corbusier-húsgagna.

„Manni svíður það að þurfa að farga heilum húsgögnum,“ segir Dagur og bendir á að þetta minni svolítið á umræðuna um matarsóun.

Dagur segir að margir hafi haft samband til þess að falast eftir því að fá húsgögnin til sín. „Þetta eru algengustu tölvupóstarnir sem ég hef fengið eftir að málið kom upp. Fjölmargar góðar ábendingar,“ segir Dagur.

Hann segir miður að geta ekki orðið við þessum ábendingum. „En auðvitað skilur maður líka höfundarréttarsjónarmiðið,“ bætir Dagur við. Borginni sé þröngt sniðinn stakkur í ákvarðanatöku í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×