Umræðum um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 lauk í fjárlaganefnd á laugardaginn var og er það því tilbúið til þriðju umræðu sem mun hefjast á morgun.
Athygli vekur að millifærsla upp á 50 milljónir frá lögregluumdæminu á Austurlandi til lögregluumdæmisins á Suðurlandi er enn inni í frumvarpinu þrátt fyrir reglugerð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að halda lögreglunni á Hornafirði á Austurlandi.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í fjárlaganefnd, telur þessi vinnubrögð mjög undarleg.
„Maður er gáttaður á þessum vinnubrögðum. Þarna sést viðspyrna við hugmyndir forsætisráðherra um að flytja lögregluna á Hornafirði, nokkrum mínútum áður en hann skilaði lyklunum að dómsmálaráðuneytinu, á Austurland. Ég mun benda á þetta við þriðju umræðu,“ segir Bjarkey.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra er á öðru máli og taldi óþarfa að hringla með þetta áður en lokaákvörðun verður tekin um staðsetningu lögreglunnar á Hornafirði.
„Ég er að viða að mér upplýsingum og mun líklega taka lokaákvörðun um staðsetninguna í þessari viku. Á meðan ég hef ekki tekið þá ákvörðun er ekki tímabært að breyta fjárlögum. Það er síðan hægt að millifæra féð hvar svo sem lögregluembættið verður staðsett,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Lögreglan flutt austur en fjármagnið suður
Sveinn Arnarsson skrifar
